Hagnaður Brims á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam 3,8 milljörðum króna sem er rúm tvöföldun frá sama tímabili í fyrra þegar hagnaður var um 1,6 milljarðar króna. Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri Brims.

Betri afkoma Brims á fjórðungnum skýrist af góðri loðnuvertíð og hærri afurðaverðum. Vörusala jókst um þriðjung og nam 13,5 milljörðum króna. Eignir jukust um 7,6 milljarða króna á fjórðungnum og voru í lok tímabilsins rúmir 120 milljarðar. Eigið fé var 56,5 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall tæp 47%.

Þrátt fyrir góða afkomu félagsins náðist ekki að veiða um 20.000 tonn af úthlutuðum loðnukvóta félagsins vegna slæms veðurs. Vegna skerts aðgengis að ótryggri raforku neyddist Brim til þess að keyra fiskimjölsverksmiðjuna á Vopnafirði á olíu sem hækkaði kolefnisspor félagsins.


Gáfu starfsmönnum hálfan milljarð

Í tilkynningunni kemur fram að Brim hafi afhent fastráðnu starfsfólki félagsins og dótturfélaga samtals 4,4 milljónir hluta í Brimi í samræmi við starfsaldur.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims:

„Stjórn Brims ákvað fyrr á árinu að verðlauna starfsfólk sérstaklega, fyrir vel unnin störf við óvenjulegar og krefjandi aðstæður undanfarin ár, með því að afhenda þeim eignarhluti í félaginu.“

Félagið greiddi þar að auki launabónus til að mæta tekjuskatti starfsmanna vegna hlunnindanna og nam heildarkostnaður 580 milljónum króna. Gengi bréfa Brim hækkaði um 3,2% í viðskiptum dagsins og miðað við núverandi gengi er virði hlutanna sem félagið afhenti starfsmönnum 424,6 milljóna króna virði. Í fyrra voru starfsmenn Brims 800 talsins og ef horft er fram hjá starfsaldri hefur hver starfsmaður því fengið að meðaltali 530 þúsund krónur í vasann.