Útgerðarfyrirtækið Brim hagnaðist um 24,8 milljónir evra, eða sem nemur 3,8 milljörðum króna, á þriðja ársfjórðungi sem er 6,9% aukning frá sama tíma í fyrra. Brim birti uppgjör eftir lokun markaða í daga.

Tekjur Brims á þriðja fjórðungi jukust um 1,5% milli ára og námu 113,3 milljónum evra, eða um 17,4 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) dróst saman um 2,3% frá fyrra ári og nam 33,4 milljónum evra eða um 5,1 milljarði króna á fjórðungnum.

„Afkoma fjórðungsins er sambærileg því sem var í fyrra og sýnir hve mikilvægt er að vera með fjölbreyttan rekstur. Það er óvissa í Evrópu núna vegna stríðs og verðbólgu,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.

„Erfitt er að spá um hvað gerist á okkar afurðamörkuðum á næstu mánuðum en það styrkir Brim að vera með margar tegundir afurða eins og sést á þessum ársfjórðungi þar sem verð á lýsi og mjöli voru góð. Sterkt og gott sölunet styrkir alla þætti starfseminnar á tímum eins og núna. Efnahagur félagsins er traustur og eiginfjárstaðan góð.

En það er líka óvissa á Íslandi en óvissuna má minnka ef atvinnulífið, bæði atvinnurekendur og verkalýðsfélög, hefja strax málefnalegt og skynsamlegt samtal við stjórnvöld um hvernig við ætlum að ná niður verðbólgunni.“