Brimborg hefur hafið framkvæmdir við uppsetningu á stærstu hraðhleðslustöð landsins. Stöðinni hefur verið valinn staður á Flugvöllum í Reykjanesbæ stutt frá flugstöðinni.
Í tilkynningu segir að um sé að ræða stöð af Kempower gerð með hleðsluafköst allt að 600 kW og getur stöðin annað hleðslu 8 ökutækja í einu.
Brimborg hefur samið við HS veitur um orku fyrir stöðina og hefur stór heimtaug þegar verið virkjuð. Stöðin verður opin öllum rafbílanotendum með e1 hleðsluappinu og opnar í sumar.
Stöðin er svokölluð fjöltengjastöð með 8 öflugum CCS tengjum. Sex tengjanna geta afkastað 120 kWh á klukkustund fyrir venjulega rafbíla og til viðbótar eru tvö vökvakæld tengi sem geta annað allt að 375 kWh á klukkustund fyrir rafmagnsvörubíla, rafknúna hópferðabíla og rafmagnsfólksbíla sem vinna á hærri rafspennu.
Stöðin er hönnuð á svipaðan hátt og bensínstöð með gegnum-akstri og hefur miðað að því að einfalda aðgengi að og frá og tryggja gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Upphituð plön verða við stöðina, góð lýsing og öryggismyndavélar auk þess sem hluti af raforkunni verður fengin með sólarorkuveri sem reist verður á þaki þjónustuhúss bílaleigu Brimborgar þegar það rís sem mun draga úr álagstoppum á dreifikerfið.