Almenni lífeyrissjóðurinn og Brú, lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, hafa ákveðið að hefja samstarf um séreignarsparnað.

Samstarfið felst í því að Brú mun benda sjóðfélögum sínum á ávöxtunarleiðir Almenna fyrir séreignarsparnað, bæði fyrir séreign sem myndast með greiðslu lágmarksiðgjalds og viðbótariðgjalds (viðbótarlífeyrissparnaðar).

Áréttað er að sjóðfélagar Brúar hafi eftir sem áður frjálst val um hvert þeir greiða séreignarsparnaðinn sinn.

Töldu óhagkvæmt að stofna eigin séreignardeild

Í sameiginlegri fréttatilkynningu segir að áhugi á séreignarsparnaði hafi aukist á síðustu árum, m.a. vegna hækkunar á skylduiðgjaldi í lífeyrissjóð og auknum sveigjanleika til að greiða í séreign.

„Vegna þessa skoðaði Brú þann möguleika að stofna að nýju séreignardeild og deild fyrir tilgreinda séreign en niðurstaða greiningarvinnu var að slíkt væri kostnaðarsamt og óhagkvæmt fyrir sjóðfélaga,“ segir í tilkynningunni.

„Sjóðurinn ákvað því að ganga til samstarfs við Almenna lífeyrissjóðinn sem hefur áratuga reynslu af rekstri séreignarsjóða, hefur skilað góðri langtímaávöxtun og leggur áherslu á góða upplýsingagjöf til sjóðfélaga.“

„Með samstarfinu við Almenna lífeyrissjóðinn sjáum við fjölmörg tækifæri til að auka þjónustu við okkar sjóðfélaga. Almenni lífeyrissjóðurinn hefur áratuga reynslu af rekstri séreignardeilda, sem hafa skilað sjóðfélögum góðri ávöxtun. Vöruframboð Almenna lífeyrissjóðsins er gott en þar er hægt að velja á milli sjö ávöxtunarleiða sem taka tillit til aldurs og áhættuþols,“ segir Gerður Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Brúar.

Bent er á að hjá Almenna sé hægt að velja á milli sjö ávöxtunarleiða fyrir séreignarsparnaðinn í allt frá 100% í íslenskum innlánum yfir í 100% í erlendum eignum. Sjóðfélagar geti valið úr leiðum með tilliti til aldurs og áhættuþols og ekki er greiddur sölu- eða upphafskostnaður.

Ávöxtunarleiðirnar eru: Ævisafn I, Ævisafn II, Ævisafn III, Innlánasafn, Ríkissafn, Skuldabréfasafn og Erlent verðbréfasafn.

„Við erum stolt af því að vinna með Brú lífeyrissjóði sem hefur náð eftirtektarverðum árangri við uppbyggingu sjóðsins og sameiningu margra lífeyrissjóða sveitarfélaga. Það er mikil viðurkenning fyrir okkur að Brú vilji mæla með ávöxtunarleiðum Almenna fyrir séreignarsparnað,“ segir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna.