Hlutabréfamarkaðir vestanhafs og í Evrópu hafa staðið umtalsvert betur en markaðurinn á Íslandi á undanförnum misserum.

Arðgreiðsluleiðrétt úrvalsvísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins, OMX Iceland 15, hefur þó tekið við sér að undanförnu. Vísitalan hefur hækkað um 17,7% frá því á sama tíma í fyrra og hækkað um 5,3% frá áramótum. Vísitalan tók kipp þegar líða tók á seinni hluta árs 2023. Hún lækkaði á ný á fyrstu mánuðum þessa árs og sigldi lygnan sjó þar til hún tók annan kipp síðastliðinn mánuð.

Sé horft til helstu vísitalna erlendis, sem einnig eru arðgreiðsluleiðréttar, hafa hækkanir hins vegar verið mun meiri.

Nasdaq 100 vísitalan hefur hækkað um 33,5% undanfarið ár og um 20,7% frá áramótum, en vísitalan undanskilur fjármálafyrirtæki og er þar af leiðandi ágætis vísbending um þróun gengi bréfa tæknifyrirtækja. MSCI World vísitalan hefur einnig hækkað talsvert, um 18,5% frá áramótum og 29,9% frá því á sama tíma í fyrra. Dow Jones Industrial Average hefur sömuleiðis hækkað um 14,8% frá áramótum og 28,6% frá því á sama tíma í fyrra

Minni vöxtur í Evrópu

Þegar litið er til evrópskra vísitalna má sjá merki um minni vöxt samanborið við vestanhafs. FTSE All-Share vísitalan hefur hækkað um 10% frá áramótum og 12,3% frá því á sama tíma í fyrra. Þá hefur DAX vísitalan í Frankfurt hækkað um 15,2% frá áramótum og 24,8% frá því á sama tíma í fyrra. Euro Stoxx 50 hefur þá hækkað um 12,9% frá áramótum og 21,7% frá því á sama tíma í fyrra.

Úrvalsvísitölur í nágrannalöndum Íslands hafa hækkað meira en sú íslenska frá áramótum en vísitölurnar sýna þó keimlíka þróun þegar litið er til síðustu tólf mánaða.

OMXC 25 vísitalan í Kaupmannahöfn hefur hækkað um 15,9% frá því á sama tíma í fyrra og um 8,4% frá áramótum. OMXH25 vísitalan í Helsinki hefur hækkað um 13,7% á einu ári og 7,6% frá áramótum. Þá hefur OBX vísitalan í Osló hækkað um 12% á einu ári og 10,9% frá áramótum. OMXS30 vísitalan í Stokkhólmi hefur hækkað nokkuð meira en aðrar vísitölur á Norðurlöndum, eða um 22,1% á síðustu tólf mánuðum og 11,4% frá áramótum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og fréttina í heild hér.