Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara hefur metið Brynjar Níelsson, lögmann og fyrrverandi þingmann, hæfastan umsækjenda til að hljóta setningu í embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Þá hefur dómnefnd metið Jónas Þór Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformann Landsvirkjunar, hæfastan umsækjenda til að hljóta skipun í embætti dómara við Héraðsdóm Reykjaness.
Dómsmálaráðuneytið auglýsti í nóvember síðastliðnum þessu tvö embætti héraðsdómara laus til umsóknar. Annars vegar er um að ræða skipun í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjaness og hins vegar setningu í embætti dómara með starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Greint er frá umsögnum dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins á vef Stjórnarráðsins í morgun.