Brynjólfur Bjarnason, fyrrverandi forstjóri Símans og Granda, lést sunnudaginn 16. mars á heimili sínu í Nýhöfn í Garðabæ. Greint er frá andláti hans í Morgunblaðinu í dag.
Á árunum 1973-1976 var hann forstöðumaður hagdeildar Vinnuveitendasambands Íslands (nú Samtök atvinnulífsins). Hann var framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins, AB, frá 1976-1983, og árið 1984 tók hann við starfi framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Granda og gegndi því til ársins 2002. Þar leiddi hann umbreytingu fyrirtækisins og einkavæðingu.
Á árunum 2002-2010 var hann forstjóri fjarskiptafélagsins Símans/Skipta, og stýrði þar einkavæðingu Landsíma Íslands í Símann árið 2005. Árið 2012 tók hann við starfi framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands og gegndi því til ársins 2014.
Hann sat í stjórn Arion banka frá 2014-2024 og var stjórnarformaður bankans á árunum 2019-2024.
Brynjólfur sat í gegnum árin í stjórnum fjölmargra fyrirtækja í sjávarútvegi, s.s Icelandic, Coldwater seafood, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, SH, LÍÚ, Hraðfrystihúss Eskifjarðar/Eskju, Hraðfrystihússins Gunnvarar Ísafirði, Ísfélags Vestmannaeyja, Þormóðs ramma Siglufirði, Faxamjöls, Faxamarkaðarins, var stjórnarformaður Hafrannsóknastofnunar, Friosur S.A. Chile, Pesquera Siglo Mexico, Bakkavarar Group o.fl.
Hann hefur einnig setið í stjórnum fjarskiptafélaga, s.s. Símans, Mílu, Skjás Miðla og Farice, í stjórnum félaga á fjármálamarkaði, s.s. Arion banka, Íslandsbanka, Iðnaðarbanka, Almenna lífeyrissjóðsins, Þróunarfélags Íslands, Valitor og MarInvest, sem og í stjórnum ýmissa fyrirtækja í iðnaðarstarfsemi, s.s. ISAL/Rio Tinto, Invent Farma, Promens, Sindra Stáls, Álafoss og verksmiðjunnar Dúks sem var fyrirtæki föður hans.
Auk þessa hefur Brynjólfur setið í stjórnum margra menningarstofnana og félagasamtaka, s.s. hjá Reykjavík Menningarborg Evrópu árið 2000, AB bókaútgáfu, í Launasjóði rithöfunda, Leikritunarsjóði Leikfélags Reykjavíkur, Menningarsjóði útvarpsstöðvanna, Félagi íslenskra bókaútgefenda o.fl.
Brynjólfur var um árabil ræðismaður Chile á Íslandi og hlaut árið 2008 heiðursorðuna „Chilean Order al Merito“. Hann var sæmdur riddarakrossi íslensku fálkaorðunnar árið 1994.
Brynjólfur fæddist í Reykjavík 18. júlí 1946. Foreldrar hans voru Kristjana Brynjólfsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 1923, d. 2000, og Bjarni Björnsson forstjóri í Reykjavík, f. 1920, d. 2001. Brynjólfur ólst upp í Hlíðunum við gott atlæti foreldra sinna á fallegu menningarheimili ásamt þremur fjörugum bræðrum.
Brynjólfur gekk í Austurbæjarskóla og í Verslunarskóla Íslands þar sem hann útskrifaðist sem stúdent árið 1967. Hann útskrifaðist með cand. oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1971 og MBA-gráðu frá University of Minnesota árið 1973.
Eftirlifandi eiginkona Brynjólfs er Þorbjörg Kristín Jónsdóttir rekstrarhagfræðingur, f. 1962, þau giftu sig 1993. Börn þeirra eru Brynjólfur Jón og Helena Kristín. Börn Brynjólfs með fyrri eiginkonu, Kristínu Thors (þau skildu 1990), og stjúpbörn Þorbjargar, eru Birgir Örn, Kristjana, Helga Birna og Bjarni. Uppeldisdóttir Brynjólfs og Þorbjargar er Sandra Yildiz Castillo Calle. Barnabörnin eru 11 og barnabarnabörnin 2.