Andri Þór Bergmann, einn af stofnendum Garðfix, segir að starfsemi garðþjónustufyrirtækisins, sem hann stofnaði með Arngrími Agli Gunnarssyni síðasta sumar, hafi gengið vonum framar.
Garðfix sérhæfir sig í sjálfvirkum sláttuvélum sem sjá um allan garðslátt fyrir viðskiptavini yfir sumartímann. Vélarnar virka svipað og sjálfvirku ryksuguvélmennin sem sjá um að ryksuga stofugólf.
Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að þeir hafi fengið fjölda fyrirspurna alveg frá byrjun og að eftirspurnin hafi jafnvel farið umfram framboð.
„Við vorum í hlutastarfi með þetta í fyrra en við þurftum eiginlega að loka fyrir fyrirspurnir bara vegna þess að við vildum passa upp á að geta veitt öllum viðskiptavinum okkar þá þjónustu sem við vildum.“
Andri segir að félagið þeirra hafi þrefaldast í stærð frá stofnun og sjá þeir fram á enn betra sumar í ár. „Það er allt á uppleið núna og við sjáum fram á að geta fjórfaldað umsvifin okkar í sumar.“
Frumkvöðlar í húð og hár
Garðfix var stofnað af þeim félögunum þegar þeir voru aðeins 17 ára gamlir. Þeir voru saman í Verzlunarskóla Íslands en hugmyndin um að stofna fyrirtæki kviknaði á kaffistofunni í Húsasmiðjunni, þar sem þeir voru báðir að vinna.
„Við höfum báðir mjög mikinn áhuga á fyrirtækjarekstri og viðskiptum, ég veit til dæmis ekki hversu oft á dag ég fer inn á Viðskiptablaðið. Þannig okkur datt bara í hug að gera eitthvað sjálfir að og fórum að leigja út þessa slátturóbota,“ sagði Andri í fyrra.
Andri og Arngrímur fá sína róbota frá sænska fyrirtækinu Husqvarna en það er stærsta fyrirtæki í heiminum þegar kemur að slíkum vélum.
„Sláttuvélin getur slegið blettina á hverjum einasta degi yfir sumarið og vélarnar gera það að verkum að garðurinn lítur nánast út eins og púttvöllur á golfvelli.“