Tæplega 8,4 milljónir farþega munu ferðast um Keflavíkurflugvöll árið 2025 samkvæmt farþegaspá flugvallarins. Árið 2024 fóru tæplega 8,3 milljónir um flugvöllinn og er því gert ráð fyrir 0,8% fjölgun farþega á milli ára.

Spáin gerir þá ráð fyrir 3% fjölgun erlendra ferðamanna milli ára og verða þeir rúmlega 2,32 milljónir eða um 9 þúsund fleiri en þeir voru metárið 2018. Aðeins tvisvar hafa farþegarnir verið fleiri, 8,76 milljónir 2017 og 9,80 milljónir 2018.

„Við horfum fram á hóflegan vöxt og þriðja stærsta ár Keflavíkurflugvallar hvað varðar farþegafjölda, og það stærsta í komu erlendra ferðamanna. Þetta endurspeglar sterka stöðu Keflavíkurflugvallar sem tengistöðvar og Íslands sem eftirsóknarverðs áfangastaðar þrátt fyrir áskoranir á liðnu ári,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli.

Yfir sumarmánuðina munu 26 flugfélög fljúga áætlunarflug til 92 áfangastaða og 21 flugfélag til 70 áfangastaða yfir vetrarmánuðina. Áætlað er að hlutfall tengifarþega verði um 30% af heildarfarþegafjölda sem er svipað og það var 2024.

„Á árinu munum við taka nýja austurálmu flugstöðvarinnar að fullu í notkun, þar á meðal fjóra nýja landganga sem leiða beint út í vél. Þetta er mikilvægur áfangi í því að bæta gæði og þjónustu flugvallarins. Þessi þróun styrkir okkur í alþjóðlegri samkeppni og skapar betri upplifun fyrir gesti okkar og viðskiptavini.“