Súpuframleiðandinn Campbell's reiknar með að tekjur félagsins muni fara minnkandi á næstunni þar sem búið er að slaka á samkomutakmörkunum víða vestanhafs. Á síðasta ársfjórðungi voru tekjur súpuframleiðandans mun meiri en reiknað var með. Sala á niðursuðuvörum Campbell's jókst verulega eftir að samkomubönn voru sett á vegna kórónuveirunnar, enda var mikið um það að fólk tók að birgja sig upp af nauðsynjavörum í upphafi faraldursins. Nú hafa veitingastaðir hins vegar opnað á ný og því er fólk ekki að borða heima hjá sér í jafn miklum mæli og áður. Reuters greinir frá.

Í kjölfar þessara frétta lækkaði gengi hlutabréfa Campbell's um 5,5%. Eftir að veiran fór á flug jókst sala fyrirtækisins á súpu um 52%, en nú þegar liðið hefur á faraldurinn og slakað á aðgerðum reiknar félagið með að salan færist nær því sem hún var áður.