Heimsmarkaðsverð á Arabica-kaffibaunum fór upp í 476 krónur á hvert pund (0,45kg) en verðið á þeim baunum, sem enda í flestum kaffibollum heims, hefur hækkað um meira en 80% á þessu ári.
Á vef BBC segir að kaffikaupmenn búist nú við miklum uppskerubresti en stærstu kaffiframleiðendur heims, Brasilía og Víetnam, hafa orðið fyrir barðinu á slæmu veðri meðan eftirspurn eftir kaffi heldur áfram að aukast.
Á undanförnum árum hafa helstu kaffifyrirtæki heims tekið á sig verðhækkanir til að halda viðskiptavinum ánægðum og til að viðhalda markaðshlutdeild. Að sögn Vinh Nguyen, forstjóra Vinh Nguyen Tuan Loc Commodities, er það að fara að breytast.
„Vörumerki eins og JDE Peet, Nestlé og önnur hafa tekið við högginu af hækkandi hráefnisverði. Núna eru hins vegar komin ákveðin tímamót og er útlit fyrir að við munum sjá verðhækkanir í matvöruverslunum á fyrsta ársfjórðungi 2025,“ segir Vinh.
Aðaláhyggjurnar eru vegna slæms veðurs í Brasilíu en landið upplifði sína verstu þurrka í 70 ár í ágúst og september. Í kjölfarið fylgdu svo miklar rigningar í október. Birgðir á Robusta-kaffibaunum munu einnig dragast saman vegna mikilla þurrka og úrkomu í Víetnam.
Kaffi er næstmest selda vara í heiminum miðað við rúmmál á eftir hráolíu og halda vinsældir drykkjarins áfram að aukast.
„Eftirspurn eftir hráefninu er enn mikil á meðan birgðir framleiðenda og brennslustöðva halda áfram að minnka. Það er búist við að hækkun á kaffiverði muni halda áfram í nokkurn tíma,“ segir Fernanda Okada, sérfræðingur í kaffiverði hjá S&P Global Commodity Insights.