Bubbi Morthens á í viðræðum við Universal Music um sölu á höfundarrétti að tónlistarsafni sínu í svokölluðum uppkaupssamningi. Hann greindi frá þessu í nýlegum hlaðvarpsþætti Þjóðmála.

Uppkaupssamningar (e. Buy-Out) einkennast af því að í þeim er allur réttur að viðkomandi verki framseldur út verndartíma höfundarréttarins gegn eingreiðslu.

Bubbi keypti útgáfuréttinn á tónlist sinni af útgáfufyrirtæki sínu á árunum fyrir hrun og setti í Hugverkasjóð Bubba Morthen. Sem frægt er þá seldi hann sjóðinn til Sjóvá, fyrir tilstilli Íslandsbanka, árið 2005. Með sölunni fékk Bubbi stefgjöld greidd fram í tímann, nokkra tugi milljóna króna.

Árið 2011 keypti Bubbi útgáfuréttinn að lögum sínum til baka af Hugverkasjóðnum.

„Ég framseldi það sem heitir á ensku „publishing right“,“ sagði Bubbi um söluna árið 2005. „Það þýðir að þú átt höfundarréttinn. Þú ert með sæmdarréttinn og ert með allan rétt yfir honum en þú framselur mögulegar tekjur [til framtíðar, ...] Þú færð þetta bara fyrir fram.“

Bubbi sagði að þetta væri í grunninn einfalt og sjálfsagt fyrirkomulag. Tónlistarmenn úti um allan heim fari þessa leið. Á undanförnum árum hafi þeir í auknum mæli verið að selja höfundarréttinn sinn í gegnum uppkaupssamninga.

„Það er stórsniðugt, sérstaklega á tímum þegar tekjur höfunda eru að hrynja, þá er þetta bara frábær leið til að bjarga sér og sínum fyrir horn á seinustu og verstu tímum.“

Lendingarljósin komin á

Bubbi greindi frá því að hann sé að undirbúa stórtónleika 6. júní 2026 í tilefni af því að hann verður 70 ára. Hann segir að þetta verði sennilega síðustu tónleikarnir á lífsleiðinni sem flokkist sem stórtónleikar, en bætti þó við að hann sé alltaf tilbúinn að skipta um skoðun.

„En líklega mun ég draga mig nánast algjörlega í hlé núna eftir sjötugt [...] Þá fer ég út af öllum samfélagsmiðlum. Það er planið mitt, að yfirgefa sviðið á meðan að fólk man eftir mér í formi, lítandi vel út og vera til friðs,“ sagði Bubbi.

„Flugvélin mín er með lendingaljósin kveikt, ég er búinn að setja niður hjólin á flugvélinni, ég sé flugbrautina en ég er ekki lentur.“

Bubbi tók þó fram að hann sé hvergi hættur að taka upp tónlist og stefni á að gera það fram í rauðan dauðann. „Ég er með þetta markmið að deyja í formi og helst syngjandi.“