Borfyrirtækið North Tech Drilling ehf. (NTD) landaði 4,6 milljarða króna samningi við Orkuveituna (OR) um borun allt að 35 jarðhitahola í lok síðasta árs í kjölfar eins stærsta útboðs OR síðari ára sem fór fram í ágúst.
NTD, sem vinnur í samstarfi við ítalska fyrirtækið Hydro Drilling S.R.L., lagði inn lægsta tilboðið en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 5.967 milljónir króna. Um er að ræða einn stærsta einstaka jarðhitaborunarsamning sem gerður hefur verið á Íslandi.
NTD og Jarðboranir voru einu fyrirtækin sem buðu í alla þrjá flokka útboðsins. Tilboð NTD var helmingi lægra en tilboð Jarðborana sem var upp á 9,7 milljarða króna samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni.
Framkvæmdastjóri og stofnandi NTD, Geir Hagalínsson, segir félagið ætla að efla samkeppni á íslenska bormarkaðnum sem hafi listast af einum aðila, Jarðborunum, sem hafi gnæft yfir samkeppnisaðila sína.
„Við höfum aðeins verið að hrista upp í þessum markaði með boranir og veita heilbrigða samkeppni. Við stefnum á að halda áfram að vaxa og dafna og erum komin með öflugan fjárfestahóp á bak við okkur.“
Fréttin er hluta af lengri umfjöllun um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.