Eftir nær sex áratugi við stjórnvölinn hjá Berkshire Hathaway hyggst Warren Buffett segja skilið við forstjórastöðuna í desember.
Ástæða ákvörðunarinnar er einföld að mati 94 ára fjárfestisins - aldurinn er farinn að segja til sín.
Buffett, sem hefur verið ein helsta goðsögn fjármálaheimsins frá því hann tók við taumunum hjá Berkshire árið 1965, tilkynnti ákvörðun sína óvænt í lok aðalfundar fyrirtækisins þann 3. maí.
Þar staðfesti hann að Greg Abel, arftaki hans til margra ára, myndi taka við sem forstjóri í lok ársins.
„Það var enginn galdraljómi yfir þessari ákvörðun,“ segir Buffett í viðtali við Wall Street Journal. „Hvernig veit maður nákvæmlega hvenær maður verður gamall?“ bætti hann við og viðurkenndi að orkan væri einfaldlega ekki sú sama og áður.
Buffett lýsti því hvernig hann hafi í seinni tíð orðið var við minni orku og hraða á eigin vinnudegi, sérstaklega í samanburði við Greg Abel, sem nú er 62 ára.
Hann greinir frá því að dagleg virkni þeirra tveggja hafi orðið sífellt ólíkari: „Það var ótrúlegur munur á hvað Greg gat afkastað á tíu klukkustundum miðað við mig.“
Ákvörðunin um að stíga til hliðar hafi orðið til á undanförnu ári, en þó aldrei verið tekin á einum tilteknum degi.
Hann segist hafa farið að finna fyrir því að hann missti stundum jafnvægi og átti erfiðara með að muna nöfn og sjónin hafi líka breyst. „Dagblaðið virtist allt í einu eins og það væri prentað með of litlu bleki.“
Greg Abel kom fyrst inn í hóp Berkshire árið 1999 með fjárfestingu í MidAmerican Energy, en vakti fljótt athygli Buffett fyrir leiðtogahæfileika og færni í viðskiptum.
Árið 2018 var hann gerður að varaforstjóra og fékk yfirumsjón með öllum rekstri fyrirtækisins utan trygginga. Síðan 2021 hefur hann verið formlegur eftirmaður Buffett sem forstjóri í biðstöðu.
Þótt margir hafi talið að Buffett myndi stýra Berkshire þar til hann félli frá, segist hann aldrei hafa litið svo á: „Ég hélt ég myndi vera forstjóri svo lengi sem ég teldi mig nýtast betur en nokkur annar í því starfi,“ segir Buffet. „Og það kom mér á óvart hversu lengi það entist.“
Þrátt fyrir að Buffet hyggist hætta sem forstjóri mun hann áfram gegna formennsku í stjórn Berkshire og hefur ekki sett sér tímaramma á dvöl sína í því hlutverki.
Hann ætlar heldur ekki að hætta að mæta á skrifstofuna í Omaha.
„Heilsan er fín og mér líður vel á hverjum degi,“ segir. „Ég fæ að vinna með fólki sem ég elska og þau virðast hafa gaman af mér líka.“
Buffett sagði jafnframt að þótt hann viðurkenni að hæfileikar hans hafi dvínað á sumum sviðum, haldi hann enn í það sem hann telur verðmætasta eiginleikann sem fjárfestir: skýra dómgreind í ólgusjó markaðarins.
„Ég fæ ekki taugaáfall þegar hlutabréf lækka. Ég hræðist það ekki og það er ekki tengt aldrinum.“