Eftir nær sex ára­tugi við stjórn­völinn hjá Berks­hire Hat­haway hyggst War­ren Buf­fett segja skilið við for­stjórastöðuna í desember.

Ástæða ákvörðunarinnar er ein­föld að mati 94 ára fjár­festisins - aldurinn er farinn að segja til sín.

Buf­fett, sem hefur verið ein helsta goðsögn fjár­mála­heimsins frá því hann tók við taumunum hjá Berks­hire árið 1965, til­kynnti ákvörðun sína óvænt í lok aðal­fundar fyrir­tækisins þann 3. maí.

Þar stað­festi hann að Greg Abel, arf­taki hans til margra ára, myndi taka við sem for­stjóri í lok ársins.

„Það var enginn galdra­ljómi yfir þessari ákvörðun,“ segir Buf­fett í viðtali við Wall Street Journal. „Hvernig veit maður nákvæm­lega hvenær maður verður gamall?“ bætti hann við og viður­kenndi að orkan væri ein­fald­lega ekki sú sama og áður.

Buf­fett lýsti því hvernig hann hafi í seinni tíð orðið var við minni orku og hraða á eigin vinnu­degi, sér­stak­lega í saman­burði við Greg Abel, sem nú er 62 ára.

Hann greinir frá því að dag­leg virkni þeirra tveggja hafi orðið sí­fellt ólíkari: „Það var ótrú­legur munur á hvað Greg gat af­kastað á tíu klukku­stundum miðað við mig.“

Ákvörðunin um að stíga til hliðar hafi orðið til á undan­förnu ári, en þó aldrei verið tekin á einum til­teknum degi.

Hann segist hafa farið að finna fyrir því að hann missti stundum jafn­vægi og átti erfiðara með að muna nöfn og sjónin hafi líka breyst. „Dagblaðið virtist allt í einu eins og það væri prentað með of litlu bleki.“

Greg Abel kom fyrst inn í hóp Berks­hire árið 1999 með fjár­festingu í MidA­merican Ener­gy, en vakti fljótt at­hygli Buf­fett fyrir leið­toga­hæfi­leika og færni í við­skiptum.

Árið 2018 var hann gerður að vara­for­stjóra og fékk yfir­um­sjón með öllum rekstri fyrir­tækisins utan trygginga. Síðan 2021 hefur hann verið form­legur eftir­maður Buf­fett sem for­stjóri í biðstöðu.

Þótt margir hafi talið að Buffett myndi stýra Berkshire þar til hann félli frá, segist hann aldrei hafa litið svo á: „Ég hélt ég myndi vera forstjóri svo lengi sem ég teldi mig nýtast betur en nokkur annar í því starfi,“ segir Buffet. „Og það kom mér á óvart hversu lengi það entist.“

Þrátt fyrir að Buf­fet hyggist hætta sem for­stjóri mun hann áfram gegna for­mennsku í stjórn Berks­hire og hefur ekki sett sér tíma­ramma á dvöl sína í því hlut­verki.

Hann ætlar heldur ekki að hætta að mæta á skrif­stofuna í Omaha.

„Heilsan er fín og mér líður vel á hverjum degi,“ segir. „Ég fæ að vinna með fólki sem ég elska og þau virðast hafa gaman af mér líka.“

Buf­fett sagði jafn­framt að þótt hann viður­kenni að hæfi­leikar hans hafi dvínað á sumum sviðum, haldi hann enn í það sem hann telur verðmætasta eigin­leikann sem fjár­festir: skýra dóm­greind í ólgu­sjó markaðarins.

„Ég fæ ekki taugaá­fall þegar hluta­bréf lækka. Ég hræðist það ekki og það er ekki tengt aldrinum.“