Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffet, fjárfesti nýverið í tveimur skráðum fyrirtækjum en félagið hefur nýtt árið að mestu í að selja hlutabréf og auka í eigið fé sitt.
Samkvæmt The Wall Street Journal ákvað Buffet að fjárfesta í pítsukeðjunni Domino‘s Pizza og Pool Corp., sem framleiðir og selur vörur fyrir sundlaugar.
Samkvæmt skráningu hjá verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (SEC) er þó um afar litla fjárfestingu að ræða þegar það kemur að Buffet, en félagið keypti bréf fyrir 549 milljónir dala í Dominos og 152 milljónir dala í Pool Corp.
Hlutabréfaverð Dominos hefur hækkað um 5,8% á árinu á meðan gengi Pool Corp. hefur lækkað um 10% í ár.
Heildarfjárfestingar Buffet samkvæmt skráningunni hjá SEC námu 1,5 milljörðum dala sem telst viðsnúningur samkvæmt WSJ.
Buffet hefur verið að selja hlutabréf í miklu magni í ár en hann seldi fyrir 36 milljarða dali á þriðja ársfjórðungi.
Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur fjárfestingafélagið selt hlutabréf fyrir 127 milljarða dali.
Buffet hefur losað verulega um stöðu sína í Apple, Bank of America, Ultra Beuaty og Capital One Financial svo dæmi séu tekin.
Handbært fé Berkshire hefur aldrei verið meira en nú en í lok þriðja ársfjórðungs nam það 325 milljörðum Bandaríkjadala, sem samsvarar um 45.199 milljörðum íslenskra króna.
Til þess að setja þetta gríðarlega fjármagn í samhengi þá gæti Buffet keypt allt hlutafé félaga eins og Walt Disney, Goldman Sachs, Pfizer eða AT&T og átt töluverðan afgang eftir.
Samkvæmt WSJ getur Buffet keypt hvaða fyrirtæki sem er, að undanskildum 25 verðmætustu félögum Bandaríkjanna.