Berks­hire Hat­haway, fjár­festingafélag War­ren Buf­fet, fjár­festi nýverið í tveimur skráðum fyrir­tækjum en félagið hefur nýtt árið að mestu í að selja hluta­bréf og auka í eigið fé sitt.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal ákvað Buf­fet að fjár­festa í pítsu­keðjunni Domino‘s Pizza og Pool Corp., sem fram­leiðir og selur vörur fyrir sund­laugar.

Sam­kvæmt skráningu hjá verðbréfa­eftir­liti Bandaríkjanna (SEC) er þó um afar litla fjár­festingu að ræða þegar það kemur að Buf­fet, en félagið keypti bréf fyrir 549 milljónir dala í Domin­os og 152 milljónir dala í Pool Corp.

Hluta­bréfa­verð Domin­os hefur hækkað um 5,8% á árinu á meðan gengi Pool Corp. hefur lækkað um 10% í ár.

Heildarfjárfestingar Buffet samkvæmt skráningunni hjá SEC námu 1,5 milljörðum dala sem telst viðsnúningur samkvæmt WSJ.

Buf­fet hefur verið að selja hluta­bréf í miklu magni í ár en hann seldi fyrir 36 milljarða dali á þriðja árs­fjórðungi.

Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur fjár­festingafélagið selt hluta­bréf fyrir 127 milljarða dali.

Buf­fet hefur losað veru­lega um stöðu sína í App­le, Bank of America, Ultra Beu­aty og Capi­tal One Financial svo dæmi séu tekin.

Hand­bært fé Berks­hire hefur aldrei verið meira en nú en í lok þriðja árs­fjórðungs nam það 325 milljörðum Bandaríkja­dala, sem sam­svarar um 45.199 milljörðum ís­lenskra króna.

Til þess að setja þetta gríðarlega fjármagn í samhengi þá gæti Buffet keypt allt hlutafé félaga eins og Walt Disney, Goldman Sachs, Pfizer eða AT&T og átt töluverðan afgang eftir.

Samkvæmt WSJ getur Buffet keypt hvaða fyrirtæki sem er, að undanskildum 25 verðmætustu félögum Bandaríkjanna.