Í fyrra hóf Berkshire Hathaway, fjárfestingarfélag Warren Buffet, að losa sig við töluvert magn af Apple-hlutabréfum sem félagið keypti fyrir um 9 árum síðan.
Frá því í desember hefur markaðsvirði Apple lækkað um eitt þúsund milljarða dala, sem gerir tímasetningu Buffets nánast fullkomna, samkvæmt The Wall Street Journal.
En með sölu Apple-bréfa og öðrum eignum hefur handbært fé Berkshire stóraukist og nú beinist athyglin að því hvað Buffett hyggst gera næst.
Buffett hóf að fjárfesta í Apple árið 2016, þrátt fyrir að margir fjárfestar væru efins um mögulegan uppgang.
Þessi fjárfesting hefur nú reynst ein sú arðbærasta í sögu Berkshire Hathaway, með bókfærðan hagnað sem nam um 110 milljörðum dala þegar fyrirtækið hóf að selja.
Buffett hefur ítrekað lýst aðdáun sinni á Apple og forstjóra þess, Tim Cook. Samkvæmt WSJ má þó telja líklegt að reynslan af Coca-Cola á tíunda áratugnum hafi mótað ákvörðun hans.
Þá hafði hlutabréf í Coca-Cola hækkað tífalt, en Buffett játaði síðar að hann hefði séð eftir því að hafa ekki minnkað hlut sinn þegar verðlag fór úr takti við undirliggjandi rekstur.

Hann lýsti því sem „frábæru fyrirtæki sem skiptist á kaupum og sölum á afar heimskulegu verði“.
Söguleg sjóðsstaða
Eftir að hafa selt hluta af Apple-eignarstöðu sinni og fleiri hlutabréfum hefur handbært fé Berkshire Hathaway farið upp í 318 milljarða dala, sem er met fyrir einstakt fyrirtæki.
Samsvarar það um 40,2 þúsund milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Þetta hefur dregið úr áhyggjum fjárfesta í ljósi óróleika á mörkuðum, og hefur gengi Berkshire hækkað umtalsvert á þessu ári, umfram S&P 500-vísitöluna.
En sú staðreynd að Buffett hefur ákveðið að halda þessum fjármunum aðgerðalausum vekur nýjar spurningar að mati WSJ: Er hann að bíða eftir verðlækkunum á mörkuðum? Hyggst hann nýta tækifæri til að koma stórfyrirtækjum til bjargar, líkt og hann gerði í fjármálakreppunni 2008? Eða finnst honum einfaldlega ekkert fyrirtæki vera þess virði að kaupa – enn sem komið er?
Erfitt að finna nægilega stór viðskipti
Buffett stendur frammi fyrir því vandamáli að hann þarf að fjárfesta í mjög umfangsmiklum eignum til að þær hafi raunveruleg áhrif á rekstur Berkshire, sem hefur markaðsvirði yfir eina billjón (e.trillion) dala.
Til samanburðar er stærsta yfirtaka félagsins til þessa, kaupin á járnbrautafyrirtækinu Burlington Northern Santa Fe árið 2009 á 26 milljörðum dala.
Í dag samsvarar það aðeins um 8% af sjóðsstöðu Berkshire og 2,5% af heildarvirði fyrirtækisins.
Sumir sérfræðingar telja að Buffett gæti leitað í þekktar áttir og keypt alfarið fyrirtæki sem Berkshire þegar á stóran hlut í, svo sem Coca-Cola eða American Express.
Kaup á öllum hlutabréfum í Coca-Cola myndu t.d. kosta um 280 milljarða dala, og kaup á öllum bréfum American Express um 130 milljarða.
Á meðal annarra möguleika er sú sviðsmynd að Buffett bíði eftir kreppu eða mikilli markaðsóvissu sem bjóði upp á „björgunarpakka“ svipaða þeim sem Berkshire veitti fyrirtækjum eins og Goldman Sachs og Bank of America árið 2008.
Slík viðskipti skiluðu miklum hagnaði og tryggðu Berkshire kjör sem fáum öðrum stóðu til boða.
Alex Morris, greinandi og höfundur bókar um Buffett, bendir þó á að viðskiptin þyrftu í dag að vera margfalt stærri til að skila mælanlegum ávinningi. „Þau þyrftu að vera umtalsvert stærri til að skipta máli fyrir Berkshire núna,“ segir hann.
Hefur hann innsýn í eitthvað sem aðrir sjá ekki?
Sumir fjárfestar velta fyrir sér hvort Buffett viti eitthvað sem almenningur veit ekki, einkum í ljósi spennu vegna tollastefnu Bandaríkjanna og efnahagsóvissu.
Það er ekki útilokað en Buffett fær rauntímaupplýsingar frá tugum rekstrarfélaga innan Berkshire Hathaway, sem veita honum dýrmæta innsýn í þróun neyslu, hrávöruverðs og fjármögnunar.
Adam J. Mead, sérfræðingur í sögu Berkshire, segir þó að þessi varfærni þurfi ekki að merkja að Buffett búist við hruni.
Hún gæti einfaldlega endurspeglað mat hans á því að verðlag á mörkuðum sé ekki nægilega aðlaðandi, enn sem komið er.