Í fyrra hóf Berks­hire Hat­haway, fjár­festingarfélag War­ren Buf­fet, að losa sig við tölu­vert magn af App­le-hluta­bréfum sem félagið keypti fyrir um 9 árum síðan.

Frá því í desember hefur markaðsvirði App­le lækkað um eitt þúsund milljarða dala, sem gerir tíma­setningu Buf­fets nánast full­komna, sam­kvæmt The Wall Street Journal.

En með sölu App­le-bréfa og öðrum eignum hefur hand­bært fé Berks­hire stóraukist og nú beinist at­hyglin að því hvað Buf­fett hyggst gera næst.

Buf­fett hóf að fjár­festa í App­le árið 2016, þrátt fyrir að margir fjár­festar væru efins um mögu­legan upp­gang.

Þessi fjár­festing hefur nú reynst ein sú arðbærasta í sögu Berks­hire Hat­haway, með bók­færðan hagnað sem nam um 110 milljörðum dala þegar fyrir­tækið hóf að selja.

Buf­fett hefur ítrekað lýst aðdáun sinni á App­le og for­stjóra þess, Tim Cook. Sam­kvæmt WSJ má þó telja lík­legt að reynslan af Coca-Cola á tíunda ára­tugnum hafi mótað ákvörðun hans.

Þá hafði hluta­bréf í Coca-Cola hækkað tífalt, en Buf­fett játaði síðar að hann hefði séð eftir því að hafa ekki minnkað hlut sinn þegar verðlag fór úr takti við undir­liggjandi rekstur.

Heimild WSJ.
Heimild WSJ.

Hann lýsti því sem „frábæru fyrir­tæki sem skiptist á kaupum og sölum á afar heimsku­legu verði“.

Sögu­leg sjóðs­staða

Eftir að hafa selt hluta af App­le-eignar­stöðu sinni og fleiri hluta­bréfum hefur hand­bært fé Berks­hire Hat­haway farið upp í 318 milljarða dala, sem er met fyrir ein­stakt fyrir­tæki.

Sam­svarar það um 40,2 þúsund milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Þetta hefur dregið úr áhyggjum fjár­festa í ljósi óró­leika á mörkuðum, og hefur gengi Berks­hire hækkað um­tals­vert á þessu ári, um­fram S&P 500-vísitöluna.

En sú stað­reynd að Buf­fett hefur ákveðið að halda þessum fjár­munum að­gerða­lausum vekur nýjar spurningar að mati WSJ: Er hann að bíða eftir verðlækkunum á mörkuðum? Hyggst hann nýta tækifæri til að koma stór­fyrir­tækjum til bjargar, líkt og hann gerði í fjár­mála­kreppunni 2008? Eða finnst honum ein­fald­lega ekkert fyrir­tæki vera þess virði að kaupa – enn sem komið er?

Erfitt að finna nægi­lega stór viðskipti

Buf­fett stendur frammi fyrir því vanda­máli að hann þarf að fjár­festa í mjög um­fangs­miklum eignum til að þær hafi raun­veru­leg áhrif á rekstur Berks­hire, sem hefur markaðsvirði yfir eina billjón (e.trillion) dala.

Til saman­burðar er stærsta yfir­taka félagsins til þessa, kaupin á járn­brauta­fyrir­tækinu Bur­lington Northern Santa Fe árið 2009 á 26 milljörðum dala.

Í dag sam­svarar það aðeins um 8% af sjóðs­stöðu Berks­hire og 2,5% af heildar­virði fyrir­tækisins.

Sumir sér­fræðingar telja að Buf­fett gæti leitað í þekktar áttir og keypt al­farið fyrir­tæki sem Berks­hire þegar á stóran hlut í, svo sem Coca-Cola eða American Express.

Kaup á öllum hluta­bréfum í Coca-Cola myndu t.d. kosta um 280 milljarða dala, og kaup á öllum bréfum American Express um 130 milljarða.

Á meðal annarra mögu­leika er sú sviðs­mynd að Buf­fett bíði eftir kreppu eða mikilli markaðsóvissu sem bjóði upp á „björgunar­pakka“ svipaða þeim sem Berks­hire veitti fyrir­tækjum eins og Gold­man Sachs og Bank of America árið 2008.

Slík við­skipti skiluðu miklum hagnaði og tryggðu Berks­hire kjör sem fáum öðrum stóðu til boða.

Alex Morris, greinandi og höfundur bókar um Buf­fett, bendir þó á að við­skiptin þyrftu í dag að vera marg­falt stærri til að skila mælan­legum ávinningi. „Þau þyrftu að vera um­tals­vert stærri til að skipta máli fyrir Berks­hire núna,“ segir hann.

Hefur hann innsýn í eitt­hvað sem aðrir sjá ekki?

Sumir fjár­festar velta fyrir sér hvort Buf­fett viti eitt­hvað sem al­menningur veit ekki, einkum í ljósi spennu vegna tolla­stefnu Bandaríkjanna og efna­hags­óvissu.

Það er ekki úti­lokað en Buf­fett fær raun­tíma­upp­lýsingar frá tugum rekstrarfélaga innan Berks­hire Hat­haway, sem veita honum dýr­mæta innsýn í þróun neyslu, hrávöru­verðs og fjár­mögnunar.

Adam J. Mead, sér­fræðingur í sögu Berks­hire, segir þó að þessi varfærni þurfi ekki að merkja að Buf­fett búist við hruni.

Hún gæti ein­fald­lega endur­speglað mat hans á því að verðlag á mörkuðum sé ekki nægi­lega aðlaðandi, enn sem komið er.