Hinn 94 ára goðsagnakenndi fjárfestir Warren Buffett tilkynnti á ársfundi fjárfestingafélagsins Berkshire Hathaway um helgina að hann hyggist láta af störfum sem forstjóri félagsins í árslok.

Berkshire Hathaway tilkynnti í dag að Buffett muni starfa áfram sem stjórnarformaður fjárfestingafélagsins.

Ákvörðun Buffett um hætta sem forstjóri félagsins vakti mikla athygli um helgina. Í umfjöllun WSJ segir að margir hafi talið að fjárfestirinn knái myndi gegna forstjórahlutverkinu fram að dauðadag.

Aðalfundur Berkshire Hathaway um helgina var 60. fundur félagsins sem Buffett leiddi. Fjárfestingarfélag hans tók yfir Berkshire Hathaway, sem var þá textílverksiðja á fallandi fæti, árið 1965. Hann umbreytti félaginu í fjárfestingarfélag sem er i dag með markaðsvirði upp á 1,16 þúsund milljarða dala. Markaðsvirði félagsins hefur 55-þúsundfaldast frá því sem hann keypti það.

Stjórn Berkshire Hathaway samþykkti í gær tilnefningu Buffett um að ráða Greg Abel sem forstjóra félagsins frá og með 1. janúar næstkomandi. Tilkynnt var fyrir fjórum árum að Abel hefði verið valinn sem arftaki Buffett en sá síðarnefndi gaf ekki upp hvenær hann myndi setjast í helgan stein fyrr en í gær.

Buffett sagði um helgina að myndi áfram koma að stjórn Berkshire Hathaway en tók þó fram að Abel muni taki endanlegar ákvarðanir í rekstrinum eftir næstu áramót.