Fjölskyldufyrirtækið Beitir ehf. í Vogum á Vatnsleysuströnd hefur verið auglýst til sölu á Kennitalan.is. Félagið hefur starfað frá árinu 1988 og er því með 38 ára gamla rekstrarsögu. Fyrirtækið er í eigin fasteign sem fylgir með í kaupunum.

Beitir sérhæfir sig í smíði úr ryðfríu stáli fyrir sjávarútveginn, bæði hér á landi og erlendis, en rúmlega 40% af veltu síðastliðin fimm ár má rekja til útflutnings.

Hafsteinn Ólafsson, fráfarandi eigandi Beitis, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það sé erfitt að skilja við félagið en bæði hann og eiginkona hans, Þóra Bragadóttir, séu komin á aldur og vilji nú sigla á önnur mið.

„Þetta er búið að vera langt og mikið ferðalag en við erum bæði orðin 73 ára. Við erum að vísu að fara á mánudaginn með allt okkar starfsfólk á sjávarútvegssýninguna Lofotfishing í Noregi en þetta er í tíunda sinn sem við förum þangað.“

Hann segir að sýningin hafi alltaf verið mjög skemmtileg og að það sé alltaf tekið vel á móti þeim. „Við tökum svo líka vörur frá okkur sem við erum þekktir fyrir. Við verðum meðal annars með netaborð sem eru gerð sérstaklega fyrir báta með breytilegan búnað.“

Beitir hefur markað sér sess í gegnum áratugina með hágæða þjónustu við sjávarútvegsfélög á Íslandi og í Kanada, Noregi, Danmörku, Grænlandi og Noregi. Haraldur segir að félagið hafi mikið selt á Grænlandi en þar hefur Beitir verið síðan 1997.

„Við vorum líka í Grænlandi síðasta október með flotta sýningu. Þar höfum við selt mest en nú erum við aðeins að reyna við Noreg og svo stefnum við á að fara til Kanada í haust.“

Hafsteinn og Þóra hafa rekið félagið ásamt börnunum sínum, Jónasi Braga, Hrafnhildi og Brynhildi. Beitir velti 73 milljónum króna og hagnaðist um fjórar milljónir eftir skatta árið 2023.

„Manni þykir vænt um þetta og það er náttúrulega erfitt að skilja við barnið sitt. Þetta verður mikil breyting en við verðum eflaust beðin um að vera eitthvað aðeins áfram til að hjálpa við að tengja þessa þræði.“