Stærstu fyrirtækin á evrusvæðinu gera ráð fyrir að það muni hægjast á launavexti í ár og á næsta ári. Það gæti stuðlað að hjöðnun verðbólgunnar í Evrópu.

Þetta kemur fram í frétt WSJ sem vitnar í nýja könnun Evrópska Seðlabankans sem gerð var meðal 57 stórra evrópskra fyrirtækja.

Þar segir að búist sé við að launahækkanir verði um 4,3% á þessu ári samanborið við 5,4% á síðasta ári. Þá er gert ráð fyrir 3,5% launavexti á næsta ári.

Verðbólga á evrusvæðinu hjaðnaði úr 2,6% niður í 2,5% í júní sem skýrðist af stórum hluta af lækkandi orku- og matvælaverði.