Bandaríska skyndibitakeðjan Burger King hefur enn ekki lokað útibúum sínum í Rússlandi þrátt fyrir að eigandi keðjunnar hét því að yfirgefa landið fyrir meira en ári síðan.
Restaurant Brands International (RBI), sem á 15% af öllum sérleyfisviðskiptum skyndibitastaða í Rússlandi, segir í samtali við fréttastofuna BBC að ekki væri hægt að veita neinar upplýsingar um stöðu mála að svo stöddu.
Síðan stríðið hófst í febrúar 2022 hafa mörg vestræn fyrirtæki, þar á meðal keppinautur Burger King, McDonalds, yfirgefið Rússland. Gagnrýnendur hafa sakað RBI um að „halda uppi stjórn Pútíns“ með því að halda áfram viðskiptum sínum í landinu.
RBI, sem er einn stærsti skyndibitaeigandi í heimi, segir að sérleyfissamningurinn fyrirtækisins í Rússlandi geri það afar erfitt fyrir það að fara. Samningurinn sé samstarfsverkefni með þremur öðrum samstarfsaðilum sem nær yfir 800 Burger King-veitingastaði.
Steven Tian, sérfræðingur í málefnum fyrirtækja í Rússlandi við Yale-háskóla, segir hins vegar að ákvörðun Burger King um að kenna sérleyfissamningum um væri léleg afsökun og bendir á að fyrirtæki eins og Starbucks hafi náð að segja upp sínum samningum fyrir löngu.
Talsmaður RBI segir að fyrirtækið neiti öllum nýjum fjárfestingum og stuðningi í landinu og að Burger King hafi ekki skilað hagnaði í Rússlandi frá því snemma árs 2022.