Jónas Hagan Guðmundsson, einn aðaleigenda Wise, Wisefish og Perroy, umboðsaðila Nespresso á Íslandi, ræðir í nýjasta þætti hlaðvarpsins Íslenska draumsins um Tax Free Worldwide Ltd. (starfaði einnig undir nafninu Iceland Refund) sem var selt fyrir ríflega 6 milljarða króna árið 2012, rúmum áratug eftir að hann stofnaði fyrirtækið.

Jónas hafði áður starfað fyrir Global Blue, sem sérhæfir sig í endurgreiðslu á virðisaukaskatti til ferðamanna. Hann fékk upphaflega starf í gegnum danskan eiginmann vinar móður sinnar. Umræddur maður stýrði Global Blue í Danmörku og fól Jónasi að koma upp starfsemi hjá fyrirtækinu á Íslandi.

Á þessum tíma var endurgreiðsla á virðisaukaskatti á höndum Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Jónas sem var þá á þrítugsaldri fékk því fund með Friðriki Sophussyni, þáverandi fjármálaráðherra.

„[Mér] tókst að sannfæra hann um að það væri sniðugt að hafa þetta opið, að ríkið væri ekki bara eitt að þessu. Reglugerðinni var þá breytt og í kjölfarið af því, af því að ég náið að aðstoða þá með þetta, þá var mér boðin staða að opna Global Blue á Íslandi.“

Hóf samkeppni við fyrrum vinnuveitanda sinn eftir að hafa verið rekinn

Global Blue hóf starfsemi hér á landi árið 1996 og gekk reksturinn vel að sögn Jónasar. Honum var í kjölfarið boðið að taka við sem framkvæmdastjóri félagsins í Þýskalandi og ári síðar tók Jónas, sem er uppalinn í Danmörku, við sem framkvæmdastjóri Global Blue í Danmörku. Hann gerði samkomulag við forstjóra félagsins um að hann myndi starfa í Danmörku í þrjú ár, m.a. út af skattalegum hvötum þar í landi, í kjölfarið fengi hann aðra stöðu innan fyrirtækisins.

Í kjölfarið tók hann við sem framkvæmdastjóri Global Blue í Singapúr en þáverandi yfirmanni Jónasar þóknaðist sú ákvörðun ekki og stóð í hans vegi. Jónas athugaði sín réttindi og samkeppnisákvæði starfssamningsins með lögfræðingi sínum. Erindi þess fundar rataði til Global Blue sem svaraði með því að reka Jónas.

Hann sneri þá strax heim til Íslands og stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki Iceland Refunds ásamt frænda sínum Sigurði Veigari Bjarnasyni sem hafði einnig unnið hjá Global Blue. Síðarnefnda félagið fór með málið fyrir dómstóla og reyndi að koma í veg fyrir stofnun fyrirtækisins á Íslandi. Málið snerist um hvort Ísland tilheyrði Skandinavíu, en niðurstaðan var Jónasi í vil og er nú kennt í lögfræði sem fordæmi.

„Við stofnum þetta fyrirtæki og þá áttum við ekki bót fyrir boruna á okkur. Þannig að fórum í Landsbankann og fengum 7 milljóna króna yfirdráttarlán með veði í húsinu hjá tengdapabba. Þannig var nú eiginlega upphafið af þessu.“

Iceland Refund var komið með starfsemi í 12 löndum þegar fyrirtækið, sem hét þá Tax Free Worldwide Ltd., var selt árið 2012 fyrir um sex milljarða króna sem skiptist á milli þáverandi eiganda félagsins. Jónas fjallar í þættinum ítarlegra um vöxt fyrirtækisins og söluna.

Jónas veltir þessum tilviljunum fyrir sér og hvernig hefði farið ef hann hefði fengið starfið í Singapúr.

Hefði ég fengið góða stöðu áfram… það er oft svo þægilegt þegar þú ert kominn með gott starf. Þarna var ég orðinn faðir, með íbúðarhúsalán og það var kannski ekkert mikill hvati að fara út í mikla áhættu. Það er miklu þægilegra að vera bara í launuðu starfi og fá sína mánaðarleguútborgun og maður hefði örugglega bara endað sem starfsmaður - sem hefði örugglega verið fínn ferill líka. En ég var ekki kannski svona að leita af þessari miklu áhættu að fara í eigin starfsemi akkúrat á þessum tímapunkti. Röð atvika að ég eiginlega endaði að gera það.”

„Skrýtnasti kaflinn í lífinu mínu“

Skilyrt í sölu Tax Free Worldwide Ltd. var að Jónas sæti í stjórn félagsins í tvö ár en að þeim loknum sneri hann aftur til Íslands eftir 20 ár meira og minna erlendis.

„Það er skrýtnasti kaflinn í lífinu mínu. Frá einum degi til annars úr því að fá 150 tölvupósta á dag í núll og bara enginn að hringja. Þá átti ég ekki lengur nein fyrirtæki, ekki lengur í hinu og það var bara ekkert að gera! Þetta var voða notalegt í svona mánuð og svo var mér farið að hundleiðast alveg.”

Eftir heimkomuna stofnaði Jónas fjárfestingarfélagið Varða Capital ásamt bandaríska vini sínum Edward Mac Gillivray Schmidt. Félagið hefur komið að ýmsum verkefnum, þar á meðal kaupum á einum turni í Skuggahverfinu, þróun fasteigna í Garðabæ og fleiri stöðum.

Þá stofnaði Jónas Perroy, umboðsaðila Nespresso á Íslandi sem hyggur nú á landvinninga í Finnlandi, árið 2017. ‏Jónas er einnig einn aðaleigenda upplýsingatæknifyrirtækisins Wise og Wisefish, hugbúnaðarhúss í viðskiptalausnum fyrir sjávarútveg á heimsvísu.

Jónas segist njóta sín best að sjá hlutina gerast og vill gera fáa hluti mjög vel. Sú uppgötvun kristallaðist með aðkomu að myndun Kviku Banka þar sem hann fór með um 7,7% eignarhlut í gegnum Vörðu Capital. Jónas endaði á að selja allan sinn hlut í Kviku en þessi tækifæri komu til eftir söluna á Tax Free Worldwide Ltd.

Þá átti maður einhvern pening og þá fór maður að gera fullt af hlutum og hélt maður væri ógurlega klár í öllu. Svo komst maður að því að það var nú alls ekki svo. Það eru svona ákveðnar syllur sem manni gengur vel með en maður þarf soldið að finna þær syllur.“

Fékk Ingibjörgu Sólrúnu á ráðstefnu í Austurríki

Fyrr í þættinum sagði Jónas frá því þegar hann flutti tvítugur til Frakklands til að læra frönsku. Þar kynntist hann austurrískum stráki sem er sonur manns sem átti endurvinnslufyrirtæki sem sérhæfði sig í plasti, textíl og rak sorpvinnslustöðvar.

„Hann hafði áhuga á því hvort það væru einhver viðskiptatækifæri í þessu á Íslandi. Þá var nýbúið að stofna Sorpu sem samvinnufélag sveitarfélaganna hér á höfuðborgarsvæðinu. Úr varð að ég fékk það starf hjá honum að reyna að smala eigendum saman og fara með þá út til Austurríkis til að kynna fyrir þeim starfsemina þar.“

Jónas sannfærði Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi borgarstjóra, og bæjarstjóra hinna sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins til að sækja ráðstefnu í Austurríki.

„Úr varð að þeir hálfbuðu í að taka að sér sorpvinnsluna hérna heima. Það var hins vegar ekki alveg samhljóma álit sveitastjórna um að láta þetta í hendi einhvers annars. Þetta datt dálítið upp fyrir sig,“ segir Jónas.

„Maður hugsar eftir á að maður fór þarna að hitta ráðherra, borgarstjóra og hinn og þennan. Maður hafði engu að tapa, í versta falli sagði fólk bara nei, enda var maður ekki að gera neitt annað heldur en að reyna að búa til eitthvað sem maður hélt að væri gott.“

Komið að eftirtektarverðum fasteignaviðskiptum

Í þættunum var fjallað aðeins um eftirtektarverð fasteignaviðskipti sem Jónas hefur komið að. Hann seldi til að mynda einbýlishús að Fjölnisvegi 9 árið 2022 fyrir 690 milljónir króna árið 2022, sem gerði húsið á þeim tíma að dýrasta einbýlishúsi sem selst hefur á Íslandi.

Við söluna festi Jónas, sem býr í Bandaríkjunum, svo kaup á 354 fermetra þakíbúð við Austurhöfn fyrir 620 milljónir króna árið.

Viðskiptablaðið sagði einnig frá því í haust að félag í eigu Jónasar hefði selt sumarhús í Kiðjabergi fyrir 695 milljónir króna til erlends auðsmanns.

Í gegnum hitt fjárfestingarfélagið sitt Adira komst hann yfir land sem er um þúsund hektarar á Snæfellsnesi þar sem félagið hafði raunverulega aðeins áhuga á virkjun sem stóð á landinu. Jónas og viðskiptafélagi hans sáu einnig hugsanleg tækifæri í ferðaþjónustu og reisti þar lúxushýsi sem konungsborið fólk, fremstu viðskiptajöfrar heims og jafnvel stórar Hollywood stjörnur hafa leigt á dvöl sinni hér á landi. Jónas gefur þó ekkert upp í þeim efnum enda bundinn ströngum trúnaði varðandi allt slíkt.

Nálgast má fleiri þætti og upplýsingar um hlaðvarpið hér.