Kristinn Már Gunnarsson, stofnandi tansaníska námufélagsins Baridi Group, er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaði vikunnar þar sem hann rekur sögu félagsins og tengsl sín við Tansaníu. Kristinn þekkir vel til landsins en hann bjó í Tansaníu sem unglingur.

Tansanía er land í Austur-Afríku með hátt í 70 milljónir íbúa en mannsfjöldinn hefur ríflega tvöfaldast frá aldamótum. Tansanía er 30. stærsta land heims og er sem dæmi nærri þrefalt stærra en Þýskaland.

Tansanía er fátækt land á alþjóðlega mælikvarða. Verg landsframleiðsla á mann er um 1,28 þúsund dalir en á grundvelli kaupmáttarjöfnuðar (PPP) er VLF á mann tæplega 95% minni en á Íslandi og 76% minni en meðaltalið í flokki nýmarkaðs- og þróunarlanda.

Baridi, sem var stofnað árið 2022, leggur mikið upp úr því að skapa gott starfsumhverfi og hafa jákvæð áhrif á tansanískt sam­félag. Kristinn og Baridi hafa m.a. í gegnum Baridi ­Future Foundation byggt skóla á æskuslóðum Kristins.

„Við erum búin að byggja heima­vistarskóla í Iringa-héraði fyrir 400 krakka, fyrir ríf­lega 300 stúlkur og 100 stráka, frá sjöunda bekk og upp í stúdents­próf.

Í Iringa er skólaskylda upp í ­sjöunda bekk en í kjölfarið ­hætta um 80% af stelpum í skóla, m.a. út af gömlum venjum, þær eru látnar sjá um yngri systkini, ­vinna sem húshjálp, undirbúa sig ­fyrir giftingu eða annað. Þetta er ákveðið vandamál.“

Auk þess eru samtökin með smíðaverkstæði þar sem ­Kristinn kennir strákum að smíða. Dóttir hans er búin að koma upp sauma­stofu, þar sem stelpum er ­kennt að sauma kjóla, og kald­pressu sem nýtt er til þess að vinna kókos­olíu og olíu og þara.

Samtökin fengu verðlaun frá forseta Tansaníu fyrr í ár fyrir að ­skapa langtímastörf fyrir konur í ­landinu.

7% auðlindagjald

Kristinn telur auk þess að jarðefnaiðnaðurinn geti reynst afar mikilvægur fyrir efnahag Tansaníu og skapað atvinnu ­fyrir ungt fólk.

„Ef þetta er gert rétt er þetta ótrúlegur peningur sem á eftir að skila sér til landsins og til landsmanna.“

Kristinn segir landið búa vel að því að þegar Tansanía varð sjálfstætt ríki í byrjun sjöunda áratugarins ákváðu ráðamenn að takmarka námuvinnslu. Jafnframt var tryggt að landið yrði í eigu almennings. Tansanía hafi því betri sögu að segja en mörg nágrannalönd þegar kemur að auðlindanýtingu.

„Þetta er eina Afríku­landið sem er búið að setja upp nákvæmt kerfi fyrir námu­vinnslu, hvernig maður á að taka málma úr jörðunni, vinna þá, hvaða skatta og gjöld þú átt að borga og ­annað. Við borgum 7% auð­lindagjald sem er t.d. mun ­dýrara en í ­Kongó, landinu við hliðina á ­okkur.“

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Kristin um námuverkefnið í Tansaníu í Viðskiptablaði vikunnar.

Kristinn segir að uppbygging Baridi hefði ekki verið möguleg nema vegna tengslanna sem hann var með frá því að hann bjó í Tansaníu sem unglingur. Hann lýsir Tansaníu sem öruggu landi með gott stjórnarfar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)