Umhverfisráðuneytið og Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun efndu síðastliðinn föstudag til hádegisfundar þar sem rætt var um vistvænar byggingar og áhrif þeirra á byggingariðnað hér á landi.

Fyrra framsöguerindi af tveimur hélt Björn Marteinsson, dósent við Háskóla Íslands og verkfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Hann ræddi um ýmsar viðmiðanir sem byggingar verða að uppfylla til að teljast "sjálfbærar", en þar á meðal eru kröfur um orkusparnað og varmaeinangrun sem uppfylla þarf allan tímann á meðan byggingin stendur.

Björn benti á að umhverfisvottun á borð við hinn norræna "svans-merki" geti fengist fyrir húsnæði, en þá þarf að það uppfylla umhverfiskröfur á sviði framkvæmdar, efnis og orkunotkunar. Björn lagði jafnframt áherslu á að umhverfisvæn húsabygging fæli í sér sparnað.

Stefán Freyr Einarsson, umhverfisfræðingur hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta, hélt seinna erindið. Hann benti á að um 40% allrar hráefnanotkunar í heiminum færi í byggingar. Stefán rakti nokkur viðmið sem til eru um vistvænar byggingar, þar á meðal LEED-staðalinn sem U.S. Green Building Council gefur út og BREEAM-staðalinn sem notaður er á Bretlandseyjum og víðar.

Stefán rakti að "græni" byggingariðnaðurinn í Bandaríkjunum velti nú um 12 milljörðum dollara á ári, en veltan stefni í að verða fimmfalt hærri á næsta ári. Að sögn Stefáns er aðeins eitt hús sem kalla má "vistvænt" hér á landi, en það er Sesseljuhús á Sólheimum í Grímsnesi. Stefan nefndi einnig byggingu sem Eimskip hefur látið reisa á Bretlandi sem gott dæmi um vistvænt húsnæði.