Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) vara alvarlega við frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um veiðigjald og segja fyrirætlanir stjórnvalda byggja á röngum, ófaglegum og jafnvel stjórnarskrárbrotum.
Í ítarlegri umsögn samtakanna eru færð fram rök fyrir því að tillögurnar brjóti í bága við grundvallarreglur skattaréttar, jafnræðisreglur og eignarréttarákvæði stjórnarskrár.
Skattur byggður á erlendum markaði og hagræddum hagtölum
Í frumvarpsdrögunum er lagt til að reiknistofn veiðigjalds fyrir uppsjávarfisk miðist við meðaltalsverð í Noregi og jaðarverð á íslenskum fiskmörkuðum fyrir botnfisk.
SFS benda á að með þessu séu lögð gjöld á íslensk fyrirtæki vegna verðmæta sem þau hafi ekki yfir að ráða – og sem séu í gjörólíku markaðs- og verðmyndunarumhverfi.
Að leggja norskar meðaltalsverðtölur til grundvallar álögunni feli í sér ólögmæta „útvistun“ skattstofns, sem hafi lítil sem engin tengsl við raunverulegar rekstrarforsendur hérlendis.
Samtökin benda einnig á að hagtölur sem byggja á meðaltölum séu hvorki nákvæmar né tryggar sem grundvöllur skattlagningar.
Norskar hagtölur séu unnar með öðrum aðferðum, öðrum skráningartímum og innan annars lagaumhverfis.
Þá bendi umsögn lögmannsstofunnar Wikborg Rein á að norska uppboðskerfið sé hvorki gagnsætt né laust við skekkjur, þar sem sölusamtök í eigu útgerða hafi hagsmuni af skekktri skráningu. Á það er einnig bent í áliti Wikborg að veik fiskvinnsla er einn af ókostum norska kerfisins.

„Ef rekstrarskilyrði fiskvinnslna versna verulega stendur íslenskur sjávarútvegur frammi fyrir tveimur slæmum valkostum; annars vegar að reka vinnslu með lítilli eða engri arðsemi, sem dregur úr möguleikum til fjárfestinga og verðmætasköpunar, eða hins vegar að auka útflutning á óunnum afla, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á störf, verðmætasköpun og byggð. Þróunin í Noregi – þar sem hlutfall innlendrar vinnslu á þorski hefur dregist saman úr 90% fyrir aldamót í um 60% í dag – sýnir hvað er í húfi.“
Frumvarpið í andstöðu við stjórnarskrá og alþjóðleg viðmið
SFS vísa til þess að skattlagning verði að byggjast á raunverulegum aðstæðum skattgreiðanda og megi ekki ganga svo langt að skerða eignarrétt umfram það sem stjórnarskráin heimilar.
Þá brjóti aðferðafræðin sem lögð er til gegn meðalhófs- og jafnræðisreglum og alþjóðlegum leiðbeiningum OECD og AGS, sem mæla með því að skattlagning auðlindarentu byggist á staðbundnum forsendum.
„Að mati SFS er ótækt að Alþingi samþykki svo íþyngjandi breytingu á skattaumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja áður en raunveruleg greining á lögmæti hennar liggi fyrir. Raunar vekur athygli að slíkt sé ekki gert, ekki síst í ljósi þeirra varnagla sem slegnir eru af hálfu sérfræðinga ráðuneytisins. Gera verður við það alvarlegar athugasemdir,“ segir orðrétt í umsögninni.
Tvöföldun gjaldsins með skaðlegum afleiðingum
Þrátt fyrir að ráðherra haldi því fram að tillögurnar séu „hóflegar“ benda SFS á að samkvæmt útreikningum þeirra muni veiðigjald tvöfaldast og jafnvel meira frá fyrri árum.
Það muni veikja rekstrargrundvöll fyrirtækja, þrengja að fiskvinnslu og leiða til þess að aukinn hluti aflans verði fluttur óunninn úr landi. Þá muni stór hluti tekna sveitarfélaga sem reiða sig á sjávarútveg hverfa.
Áhrifin verði hvað þyngst á landsbyggðinni.
„Fiskvinnsla er burðarás atvinnulífs í fjölmörgum samfélögum og samdráttur í henni hefur áhrif langt út fyrir sjávarútveginn sjálfan,“ segir í umsögninni.
Fullyrðingar um rangt aflaverðmæti bornar til baka
SFS vísa á bug fullyrðingum ráðherra um að aflaverðmæti hafi verið „rangt reiknað“. Þvert á móti byggi skipting aflaverðmætis á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og gildandi kjarasamningum sjómanna, þar sem sjómenn fá laun beintengd söluverði.
Að gefa annað í skyn sé ekki aðeins ábyrgðarlaust heldur tilræði við samningsbundið vinnumarkaðskerfi og eftirlitsferli sem hafi staðist próf tímans.
Umsögnin gagnrýnir enn fremur hvernig samráðsferlinu var háttað.
Gögn hafi borist of seint og jafnvel verið haldið eftir, þrátt fyrir beiðnir samtakanna. Samráðið hafi í reynd verið ómarktækt.
SFS minna á að veiðigjaldið hafi verið sett á í þeim tilgangi að standa undir kostnaði við stjórnsýslu og rannsóknir.
Þeir kostnaðarliðir séu nú um 7,9 milljarðar króna en veiðigjaldið hafi skilað ríkinu um 10,3 milljörðum króna árið 2024.
Því standi gjaldið þegar undir þeim útgjöldum sem því var ætlað að mæta og gott betur.
Samtökin skora á stjórnvöld að stíga skref til baka og endurmeta aðgerðir sínar í ljósi þeirra efnislegu, lagalegu og hagrænu athugasemda sem umsögn þeirra varpar ljósi á.
Á meðan núverandi aðferðafræði stendur ósnert, telja samtökin að veiðigjaldið verði hvorki sanngjarnt né framkvæmanlegt og geti í versta falli grafið undan þeirri verðmætasköpun sem byggt hefur íslenskan sjávarútveg upp á undanförnum áratugum.