Akraneskaupstaður, Ísold fasteignafélag, Íþróttabandalag Akraness (ÍA) og Knattspyrnufélag Akraness undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um uppbyggingu við Langasand á Akranesi. Í henni felst að byggt verði hótel, baðlón og heilsulind á svæðinu.
Í tilkynningu frá Akraneskaupstað segir að einnig sé áformuð uppbygging á svæði ÍA með nýjum knattspyrnuvöllum fyrir félagið „og stórbætt aðstaða fyrir iðkendur og íbúa“.
Horft er til samstarfs framangreindra aðila um stefnumörkun í ferðaþjónustu á Akranesi. Fyrsti áfangi í verkefninu er að greining á tækifærum í ferðaþjónustu og að móta stefnu á því sviði en áætlað er að þeim fasa ljúki innan fjögurra mánaða. Þá hefjist vinna við deiliskipulag og aðra slíka þætti. Tekið er fram að áhersla sé lögð á samráð og samtal við bæjarbúa og hagsmunaaðila.
„Hér er verið að fara í gang með mjög metnaðarfullar hugmyndir um uppbyggingu í ferðaþjónustu sem okkur hefur skort á Akranesi, en auk þess getum við bætt enn frekar aðstöðu fyrir íþróttastarfið hjá okkur. Þetta eru mikilvæg skref fyrir áframhaldandi vöxt Akraness og tilað auka enn við þjónustu og upplifun á þessu fallega svæði sem gegnir lykilhlutverki í lífi Akurnesinga,“ segir Sævar Þráinsson, fráfarandi bæjarstjóri á Akranesi.
„Við hjá Ísold hlökkum til að byggja upp hótel og baðlón með fjölbreyttri þjónustu hér á þessu frábæra svæði og taka þannig þátt í að efla og byggja upp á Akranesi og um leið að styðja við ÍA. Við getum varla beðið eftir því að hefjast handa við fyrstu verkefnin,“ segir Aðalsteinn Jóhannsson hjá Ísold fasteignum.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/122242.width-1160.jpg)