Stórsýningin Verk og vit var haldin í fimmta skipti um helgina í Laugardalshöllinni. Dómnefnd sýningarinnar veittu Byko Sýningarverðlaun Verk og vit 2022 og Verkfærasalan hlaut verðlaunin Athyglisverðasta sýningarsvæðið. Alls tóku um hundrað aðilar þátt í sýningunni.
Annað sæti Sýningarverðlaunanna hlaut Element og það þriðja hlaut Redder. Í flokknum Athyglisverðasta sýningarsvæðið hlaut Tækniskólinn annað sætið og sameiginlegur bás Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar hreppti þriðja sætið.
Í flokknum Athyglisverðasta sýningarsvæðið horfði dómnefndin til þátta á borð við forms, grafíkur, litasamsetningar og hvort sýningarsvæðið endurspeglaði viðkomandi starfsemi ásamt því hversu athyglisvert sýningarsvæðið væri. Auk þess var tekið tillit til aðgengis, klæðnaðar, þjónustu og viðmóts starfsfólks. Í flokknum Sýningarverðlaun horfði dómnefndin til glæsileika, útfærslu lýsingar og heildarhönnunar auk sömu þátta og í fyrri flokki. .
„Sýningin í ár er glæsileg og skemmtileg og það er ljóst að sýnendur lögðu sig alla fram við gerð sýningarsvæða sinna og höfðu greinilega gaman af. Ég fann hjá sýnendum að það var mikil þörf á að halda stórsýningu eins og þessa. Umhverfismálin hafa verið áberandi hjá fyrirtækjum á sýningunni og fjöldi sýningarsvæða ber þess merki. Sýningin í ár er heilt yfir mjög sterk og efnismikil, svo þetta var erfitt val, en vinningshafarnir eru sannarlega vel að verðlaununum komnir, segir Elsa Giljan Kristjánsdóttir , sýningarstjóri Verk og vit 2022 og formaður dómnefndar.
Dómnefnd skipuðu þau Elísabet Sveinsdóttir markaðssérfræðingur, Arnar Gauti Sverrisson, upplifunarhönnuður, Borgar H. Árnason grafískur hönnuður og Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri. Guðmundur Rafnar Óskarsson, dúklagningarmeistari og kennari Tækniskólans, hannaði og útbjó verðlaunagripina.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Verkfærasalan hlaut verðlaunin Athyglisverðasta sýningarsvæðið á Verk og Vit í ár.