Sævar Helgi Bragason, einnig þekktur sem Stjörnu Sævar, hefur undanfarna mánuði rekið heimasíðuna icelandatnight.is en vefsíðan er sú nákvæmasta á Íslandi þegar kemur að norðurljósaspám og mælingum á geimveðri.
Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að vefsíðan hafi verið sett á laggirnar til að auðvelda honum lífið en Sævar hefur undanfarin misseri unnið með ferðamönnum sem vilja sjá norðurljós.
„Það sem ég hef rekið mig á í gegnum það ferli er að það er verulegur skortur á áþreifanlegum upplýsingum um himininn yfir Íslandi. Vefsíðan sýnir bæði skýjahuluspá og bestu geimveðurupplýsingar sem fáanlegar eru á íslenskum vef.“
Vefsíðan vaktar þá sérstaklega sólvindinn, sem er það sem veldur norðurljósunum, og með því að vakta ákveðna þætti í þeim vindum er síðan hægt að sjá hvort norðurljós séu líkleg á himni á næsta klukkutíma eða svo.
„Þetta er algjör bylting fyrir norðurljósaunnendur en við sýnum líka staðbundnar mælingar á segulsviði. Á síðunni má einnig finna yfirlit yfir algengustu spurningar sem ferðamenn spyrja á hótelum yfir vetrartímann. Ég veit nú þegar að síðan er gífurlega mikið notuð af hótelum og ferðaþjónustuaðilum, sem kemur mér ótrúlega ánægjulega á óvart. Það er gaman að sjá hversu hraður vöxturinn á vefnum hefur verið þrátt fyrir að hafa verið í loftinu í bara eitt ár.“
Vefsíðan notast við rauntímagögn sem berast frá gervitungli milli jarðar og sólar en þegar sólvindar lemja á gervitunglin þá senda þau þær upplýsingar beint til jarðar. Þar sem þau gögn eru opinber getur Sævar birt þau á vefsíðunni á þann hátt sem honum sýnist.
Margt fleira í boði
Sævar segir að vefsíðan sýni ekki aðeins upplýsingar um norðurljós heldur bjóði hún einnig upp á upplýsingar um allt sem sést á himninum yfir Íslandi. Þar megi til að mynda finna upplýsingar um tungl- og sólmyrkva, loftsteinadrífur og alla helstu geimtengdu viðburði.
Hann minnist til að mynda á tunglmyrkvann sem sást á Austurlandi í morgun en fyrir þá sem misstu af honum þá verður einnig deildarmyrkvi á sólu þann 29. mars nk. en hann mun sjást á Íslandi.
„Það er mjög mikilvægt í dag að gefa réttar upplýsingar vegna þess að samfélagsmiðlar eru fullir af rangfærslum, misskilningi og röngum upplýsingum. Ekki síst í ljósi þess að eitt stærsta æðið í ferðamennsku undanfarin ár hefur verið eitthvað sem heitir næturtúrismi, eða geimtúrismi. Ísland er enn mjög strjábýlt og við ættum að leggja mun ríkari áherslu á að selja líka myrkvið og stjörnurnar, ekki bara norðurljósin.“
Næstu árin verða þau bestu
Sævar segir að það séu engu að síður góð ár fram undan í norðurljósaferðamennsku en næstu árin verða þau bestu fyrir norðurljósaferðir. Hann segir að árin 2026, 2027, 2028 og 2029 verði þá sérstaklega góð.
„Norðurljós verða alltaf algengust eftir sólblettahámark en því var náð núna í lok síðasta árs. Þannig að það eru góðir tímar fram undan í ferðamennsku og þeim mun mikilvægara að veita fólki eins og góðar upplýsingar og mögulegt er.“
Hann segir að ofan á það sé mikill spenningur meðal ferðamanna um næsta ár, nánar tiltekið 12. ágúst 2026, en þá mun eiga sér stað stærsti viðburður í geimtengdri ferðaþjónustu þegar almyrkvi birtist á Íslandi í fyrsta sinn síðan 1954.
Til að undirbúa fyrir þann viðburð ákvað Sævar að setja aðra vefsíðu á laggirnar á fertugsafmæli sínu í fyrra en sú síða heitir solmyrkvi2026.is. Þar má finna upplýsingar um almyrkvann sem mun ganga yfir Norðurskautið, Grænland, Ísland, Portúgal og Spán.
„Við vitum að það er gífurlegur áhugi erlendis frá að koma hingað og fylgjast með því. Fólk getur þá farið inn á síðuna og séð kort sem sýnir hversu lengi almyrkvið stendur yfir og hvenær hann nær hámarki.“
Aðspurður um hvatann í þessum verkefnum segist Sævar einfaldlega vilja tryggja að fólk fái sem bestu mögulegu upplýsingar. „Þetta er risastórt og við þurfum að vanda okkur í undirbúningi. Ég veit líka að öll ferðaþjónustufyrirtæki eru að notast við þennan vef til að skipuleggja ferðir og fleira.“