„Hér á Íslandi getum við ekki ræktað grænmeti úti á akri sökum veðurs og flytjum því inn stóran hluta þess, sem er algjör óþarfi að mínu mati. Til þess að framleiða grænmeti þarf helst vatn og rafmagn, og við höfum allt til alls hér á Íslandi,“ segir Andri Björn Gunnarsson, stofnandi Vaxa.
Vaxa var stofnað árið 2017 og byrjaði að rækta salat í gróðrarstöð sinni í Grafarholti í Reykjavík í lok árs 2018. Fyrsta uppskeran var í byrjun árs 2019 og selur félagið vörur sínar til veitingastaða og matvöruverslana hérlendis.
Stýrður landbúnaður tryggi betri gæði
Ræktunaraðferðir Vaxa er svokallaður stýrður landbúnaður (e. controlled environment agriculture), þar sem öllum breytum umhverfisins er stýrt með nákvæmum hætti allan sólarhringinn. Stærsti munurinn á stýrðum landbúnaði og hefðbundinni ræktun, er að allt sem við kemur ræktunarferlinu er undir fullri stjórn.
Gróðurhús Vaxa nýtir ekki sólarljós heldur knýr umhverfisvænt rafmagn ljósdíóður sem sjá plöntum fyrir ljósi, sama hvernig skýjafar og veður er allt árið um kring. Þannig getur Vaxa ræktað grænmeti alla daga án þess að skoða veðurspána, sem er afar heppilegt á Íslandi.
„Í landbúnaði er nú þegar verið að nota stóran hluta af því landi sem hægt er að nýta til ræktunar. Þar að auki er vatnsskortur orðið mikið vandamál í heiminum í dag, sér í lagi á þeim stöðum sem mikið af innfluttu grænmeti er framleitt, á Suður-Spáni, Ítalíu, og á vesturströnd Bandaríkjanna,“ útskýrir Andri Björn.
Hann segir stýrðan landbúnað geta minnkað álagið á hefðbundinn landbúnað m.a. með því að draga úr vatnsnotkun.
„Landbúnaður úti á akri stýrist af utanaðkomandi þáttum, þá sér í lagi veðráttu. En í innandyra ræktun eins og okkar eru þessir utanaðkomandi þættir teknir út og við búum til kjöraðstæður fyrir plönturnar. Þetta er bylting í landbúnaði.
Við teljum að stýrður landbúnaður geti tryggt betri gæði og stýrt því betur hvernig auðlindir eru nýttar. Með þessari aðferð er mun minni vatnsnotkun, minni áburðarnotkun og ekkert skordýraeitur notað. Ég trúi því að smám saman muni stærri hluti grænmetisframleiðslu flytjast innandyra og mun það vonandi minnka álagið á núverandi landbúnaðarkerfi.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.