Southwest Airlines hefur ákveðið að byrja að rukka farþega fyrir innritaðar töskur. Gjaldtakan hefst 28. maí næstkomandi en vildarfarþegar sem ferðast mest með fyrirtækinu og farþegar sem kaupa dýrustu miðana munu áfram geta innritað tvær töskur þeim að kostnaðarlausu. Þá munu aðrir vildarfarþegar og farþegar með Southwest kreditkort geta innritað eina tösku þeim að kostnaðarlausu.
Í umfjöllun WSJ segir að ákvörðunin marki mikla stefnubreytingu innan flugfélagsins en stefna Southwest um að „töskur fljúgi frítt“ var svo heilög að félagið skrásetti setninguna sem vörumerki og var heill kafli úr bók um Southwest, sem kom út á 50 ára afmæli flugfélagsins, tileinkaður stefnunni.
Southwest hefur ekki greint frá því hversu mikið almennir farþegar munu þurfa að borga. Flugfélagið tilkynnti einnig að að vildarpunktar muni nú renna út eftir tiltekinn tíma en félagið féll frá ákvæði um gildistíma vildarpunkta í Covid-faraldrinum.
Flest bandarísk flugfélög hafa rukkað farþega fyrir innritaðar töskur en Southwest barðist lengi gegn þeirri stefnu og taldi hana vera of íþyngjandi.
Búist er við því að þessi stefnubreyting muni auka hagnað félagsins en hlutabréf þess hækkuðu um 8% í síðustu viku. Southwest á þó enn eftir að sjá hvaða áhrif þetta gæti haft á sína tryggustu viðskiptavini.