Merki eru um að rekstur kvikmyndahúsa hér á landi sé að taka við sér eftir faraldurinn. Samkvæmt upplýsingum frá FRÍSK – Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði hefur aðsóknin verið að aukast.

Sé litið áratug aftur í tímann voru flestir miðar seldir árið 2018, þegar hátt í einn og hálfur milljarður miða seldist og tekjur námu 1.797 milljónum króna. Aðsókn hrundi í faraldrinum en seldir miðar fóru loks yfir einn milljarð árið 2023 og námu tekjur tæplega 1,7 milljörðum króna.

Árni Samúelsson, stofnandi Sambíóanna og framkvæmdastjóri Samfilm, segir að árið 2023 hafi sennilega verið stærsta tekjuárið hjá þeim. Það hafi tekið tíma að koma hlutunum í eðlilegt horf eftir heimsfaraldurinn en á Íslandi hafi kvikmyndahúsin sem betur fer náð sér fljótar á fætur heldur en víða í Bandaríkjunum og Evrópu.

Áskoranir séu ekki nýjar af nálinni og eru þær fleiri fram undan. Hækkandi launakostnaður og óvissa í yfirstandandi kjaraviðræðum spili þar hlutverk auk þess sem verkföll í Bandaríkjunum á nýliðnu ári hafa áhrif á framboð kvikmynda.

Árni segir þau þó hvergi af baki dottin en mikil fjárfesting hefur til að mynda farið í að bæta upplifun viðskiptavina með endurbótum á húsnæði. Þá hafa þau fundið nýjar leiðir til að fá fólk í kvikmyndahús, svo sem með því að endursýna eldri myndir.

„Framtíð kvikmyndahúsanna hefur alltaf verið björt og bíóin hafa alltaf fundið sér leiðir,“ segir Árni en það eigi enn við í dag. „Við höldum alltaf áfram.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.