„Það er greinileg verðbólga í kortunum, ekki til skamms tíma heldur langs tíma," segir Heiðar Guðjónsson fjárfestir í samtali við Viðskiptablaðið. „Ástæðan er einföld. Ríkissjóðir heims hafa eytt langt um efni fram og svo tók steininn úr í Covid.
Ofan á bætist að alþjóðavæðingin, sem hélt niðri verðum og jók framleiðni, hefur verið að ganga tilbaka. Orkan sem drífur áfram öll hagkerfi heim er að hækka í verði. Ef við erum með orkukrísu þá fáum við fæðukrísu og stjórnmálakrísu. Fátækustu löndin munu því miður lenda verst í þessu.
Hér á Íslandi erum við ágætlega sett hvað þetta varðar en við erum samt ekki algjörlega fyrir utan heimshagkerfið, við tengjumst því mikið þannig að auðvitað mun þetta hafa áhrif á Íslandi. Við það breytast forsendur og þá er mjög áhugavert að skoða framtíð Íslands út frá nýjum forsendum.“
Heiðar talar um að alþjóðavæðingin hafi verið að ganga tilbaka. Spurður hvort hann sé að vísa í þá staðreynd að mörg fyrirtæki á Vesturlöndum hafi verið loka verksmiðjum í Asíu og flytja framleiðsluna heim? „Já, þetta býr til óhagræði og enn meiri eftirspurn eftir orku á Vesturlöndum. Einnig spilar aldurssamsetning vestrænna þjóða inn í þetta dæmi, því þær eru að eldast mjög hratt.
Á síðustu þrjátíu árum höfum við séð Asíu koma með fullt af nýju fólki inn á vinnumarkaðinn. Núna gengur það að einhverju leyti tilbaka og í ofanálag er vinnandi fólki í flestum löndum Evrópu að fækka. Þetta er uppskriftin að verðbólgu.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild hér.