David Cameron, forsætisráðherra Bretlands á árunum 2010-2016, hefur samþykkt að taka að sér kennslustörf við háskóla í furstadæminu Abú Dabí.
Cameron mun fræða nemendur um „stjórnmálastörf og stjórnsýslu á tímum sundrungar“ á þriggja vikna námskeiði í janúar hjá New York University Abu Dhabi. Hann mun meðal annars fjalla um stríðið í Úkraínu og flóttamannakrísuna.
Í frétt Financial Times segir að Cameron hafi látið lítið á sér bera frá því að Greensill Capital, fyrirtæki sem sérhæfði sig í fjármögnun í aðfangakeðjum, varð gjaldþrota í fyrra. Breskir fjölmiðlar fjölluðu mikið um aðkomu Cameron að Greensill sem ráðgjafi en hann hafði samband við háttsetta aðila innan bresku ríkisstjórnarinnar í von um að tryggja fyrirtækinu aðgang að lánaúrræði Englandsbanka.
Vinur Cameron sagði við FT að kennslustörfin hjá NYU Abu Dhabi hafi verið rökrétt skref eftir fyrirlestra sem hann gaf hjá öðrum háskólum. Reynsla hans sem leiðtogi Íhaldsflokksins í 11 ár og forsætisráðherra Bretlands í 6 ár geti reynst dýrmæt við kennslu um stjórnmál og stjórnmál á tímum popúlisma og sundrungar.