Bandaríska sjóðastýringafélagið Capital Group hefur selt 0,35% hlut í Íslandsbanka á undanförnum dögum, samkvæmt uppfærðum lista yfir stærstu hluthafa bankans. Miðað við meðalgengi Íslandsbanka í febrúar má ætla að Capital Group hafi selt fyrir hátt í 900 milljónir króna.

Um er að ræða fyrstu sölu Capital Group frá því í ágúst þegar eignarhlutur félagsins fór undir 5%. Svo virðist sem salan hafi farið fram í kjölfar þess að tilkynnt var um stjórn Kviku hefði óskað eftir samrunaviðræðum við stjórn Íslandsbanka í byrjun mánaðarins. Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað um meira en 7% frá því að tilkynningin var send út.

Capital Group er áfram fimmti stærsti hluthafi Íslandsbanka og stærsti erlendi hluthafi bankans. Sjóðir í stýringu Capital Group eiga nú samtals 4,54% hlut að markaðsvirði 11,4 milljarðar króna.

Capital Group, sem er eitt stærsta eignastýringarfélag í heimi, var meðal hornsteinsfjárfesta í frumútboði Íslandsbanka í júní 2021. Eftir útboðið áttu sjóðir í stýringu félagsins samtals 3,85% hlut í bankanum. Í kjölfar seinna útboðs Bankasýslu ríkisins í mars 2022 átti Capital Group 5,07% hlut í Íslandsbanka.

Nafn hluthafa Fjöldi hluta Í % Staðfest
Ríkissjóður Íslands 850.000.007 42,50% 31.1.23
LSR 150.226.500 7,51% 7.2.23
Gildi 140.370.152 7,02% 7.2.23
LIVE 128.221.224 6,41% 9.2.23
Capital Group 90.743.491 4,54% 9.2.23
Brú 62.779.261 3,14% 31.1.23
Stapi 49.043.267 2,45% 31.1.23
Birta 32.495.810 1,62% 3.2.23
Vanguard 26.384.187 1,32% 2.2.23
RWC 24.645.008 1,23% 31.1.23
Frjálsi 23.888.265 1,19% 31.1.23
Lífsverk 23.528.607 1,18% 31.1.23
Íslandssjóðir 20.477.587 1,02% 9.2.23
Heimild: Íslandsbanki