Carbfix, dótturfyrirtæki Orkuveitunnar (OR), ákvað árið 2023 að kaupa eigin rafmagnsbor fyrir ríflega 7 milljónir evra eða um einn milljarð króna á gengi dagsins. Áætlað er að borinn komi til landsins á vormánuðum 2025.

Samkvæmt fundargerð frá miðju ári 2023 höfðu greiningar ON og Carfix bent til þess að hagkvæmara væri að eiga bor og leigja áhafnir í borverkefni.

Jafnframt kemur fram að vinnuhópur OR, sem Bjarni Bjarnason leiddi, taldi ekki fyrirsjáanlegt að Jarðboranir, stærsti aðilinn á íslenska bormarkaðnum, gæti annað þeim verkefnum sem séu nauðsynleg að fara í hjá OR samstæðunni, ef gert yrði krafa um að nýta rafmagnsbora.

„Stjórnendur Jarðborana hafa þó lýst yfir vilja að kaupa búnað til að knýja bora með rafmagni ef það fæst skuldbinding í tiltekin fjölda borverkefna en þá væri félagið að breyta 15 ára gömlum borum sem eru bæði óhagkvæmir í rekstri og mjög viðhaldsfrekir vegna aldurs,“ segir í umræddri fundargerð frá júní 2023.

Fram kemur að forsvarsmenn Carbfix hafi á sínum tíma hitt fjölda innlendra og erlenda birgja til að ræða stuðning við rekstur á bor með því að leigja inn teymi á borinn, og sögðust telja að það verði ekki erfiðleikum bundið.

Í Viðskiptablaði vikunnar er fjallað um nýlegt borútboð á borun á allt að 35 rannsóknar- og vatnstökuholum. Fyrirtækið North Tech Drilling hafði betur gegn Jarðborunum eftir að hafa boðið helmingi lægra í útboðinu, eða 4,6 milljarða króna samanborið við tæplega 9,7 milljarða tilboð Jarðborana.

Í skýrslu um hitaveitur á Íslandi frá árinu 2023, sem ÍSOR vann fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, kemur fram að kostnaður við boranir sé yfirleitt 60–80% af þeim heildarkostnaði sem felst í að afla heits vatns.

Í skýrslunni segir einnig að rekstraraðilar hitaveitna á Íslandi í dag sjái fram á langa bið eftir borþjónustu, m.a. vegna þess að mjög mikil eftirspurn sé eftir bortækjum til borana fiskeldisfyrirtækja og takmarkað framboð sé af tækjum og mannskap í landinu.

Fréttin er hluti af nánari umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn, 15. janúar 2025.