Jacob Aarup-Andersen, nýi forstjóri Carlsberg, segir að rússnesk yfirvöld hafi stolið rússneska dótturfyrirtæki sínu, Baltika Breweries.

Fyrir rúmum mánuði síðan tilkynnti danski bjórframleiðandinn að hann hefði fært niður virði dótturfélags síns í Rússland og sagt upp leyfissamningnum í landinu. Carlsberg sagði við það tilefni að það félagiðs æi enga leið færa til að semja um sölu á rússnesku starfseminni.

Aarup-Andersen, sem var ráðinn forstjóri Carlsberg í byrjun september, sagði við blaðamenn í dag að félagið hafi ekki viljað semja um sölu Baltika Breweries þar sem stjórnendur drykkjarvöruframleiðandans vildu ekki réttmæta hegðun rússneskra stjórnvalda.

„Það er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að þeir hafa stolið starfseminni okkar í Rússlandi og við ætlum ekki að hjálpa þeim að láta það líta út fyrir að hafa verið lögmætt,“ sagði Jakob á blaðamannafundi.

Rússneska ríkið þjóðnýtti í sumar dótturfyrirtækin sem sáu um að framleiða vörur fyrir bæði Carlsberg og einnig fyrir franska jógúrtframleiðandann Danone. Á þeim tíma sagðist Carslberg ekki hafa fengið neinar upplýsingar frá rússneskum yfirvöldum en fyrirtækið var að reyna að selja starfsemi sína í landinu.

Rúmlega 8.400 starfsmenn störfuðu í þeim átta verksmiðjum í Rússlandi undir leiðsögn Carlsberg.