Tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur tryggt sér 5,6 milljarða króna fjármögnun – eða um 40 milljónir bandaríkjadala – til frekari þróunar á nýjum leik sem fyrirtækið hefur þegar hafist handa við og mun gerast innan EVE leikjaheimsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Leikurinn mun að sögn byggja á bálkakeðjutækni, grundvelli flestra rafmynta, en ekki kemur nánar fram um hvers konar leik er að ræða. Vinna við hann verður aðskilin frá öðrum verkefnum félagsins að því er fram kemur í tilkynningunni og sjálfstæð fjármögnun hans er sögð liður í þeim ráðahag.
Vísisjóðurinn Andreessen Horowitz leiddi fjármögnunina en auk hans eru sjóðir á borð við Makers fund og Bitcraft meðal fjárfesta. Ekki er tilgreint hvers eðlis fjármögnunin er, en CCP hefur verið í eigu kóreska leikjaframleiðandans Pearl Abyss, sem skráður er á markað þar í landi, frá árinu 2018.
EVE Online fyrirmynd bálkakeðjuleikja
„Með framförum í bálkakeðjutækni myndast spennandi tækifæri til að skapa enn meiri dýpt og frelsi fyrir spilarana okkar,“ er meðal annars haft eftir Hilmari Veigari Péturssyni, forstjóra CCP í tilkynningunni.
Í samtali við Viðskiptablaðið bendir hann á að ólíkt gjaldmiðli EVE Online – InterStellar Kredit eða ISK, sem bundinn er við innri heim EVE Online – geti bálkakeðjur boðið upp á sjálfstæða möguleika til eignar og ráðstöfunar.
Þótt EVE Online og gjaldmiðill hans sé barn síns tíma og þónokkru eldri en rafmyntir og bálkakeðjur segir Hilmar að fyrirkomulagið og fleira sem einkenni hinn upphaflega CCP-leik eigi margt skylt með bálkakeðjukerfinu og dreifstýrðu eðli þess.
Þessu til stuðnings er í tilkynningunni haft eftir Aðalsteini Rúnari Óttarssyni, fjárfestingastjóra Makers fund, að gjarnan sé litið til EVE sem fordæmis við gerð bálkakeðjuleikja.
Á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru nú í maí síðan EVE Online kom út hefur ýmislegt gengið á bæði innan og utan leikjaheimsins. Reiknað hefur verið út að miðað við gengi ISK við helstu gjaldmiðla á svarta markaðnum hafi stærstu orrustur innan leiksins, sem telja þúsundir þátttakenda, kostað leikmenn ígildi tugmilljóna króna.
Ævitekjur EVE líklega yfir 250 milljarða byggingakostnaði Kárahnjúkavirkjunar
Í raunheimum er óhætt að fullyrða að EVE Online sé farsælasti tölvuleikur hér á landi frá upphafi. Hann hefur um árabil haft fleiri greiðandi notendur en allir Íslendingar, og á sínum 20 árum hefur hann skilað CCP meiri tekjum en allir aðrir leikir til samans.
„Ég veit nú ekki hvort við höfum sagt frá því en ævitekjur EVE Online eru líklega meiri en byggingakostnaður Kárahnjúkavirkjunar, svona til að setja það í eitthvað samhengi,“ segir Hilmar, en á verðlagi dagsins í dag nemur sá kostnaður um það bil 250 milljörðum króna. „Ég hefði getað byggt stíflu fyrir peninginn en ákvað að gera þetta í staðinn,“ bætir hann við glettinn.
Á þeirri velgengni vilja Hilmar og CCP því byggja, og setja markið hátt fyrir hinn nýja leik. Aðspurður segir Hilmar markmiðið fyrst um sinn það að hann verði svipaður að umfangi og EVE Online hvað tekjur og fjölda spilara varðar, en með tíð og tíma hugsar hann mun stærra.
Nánar er rætt við Hilmar í Viðskiptablaði vikunnar sem kemur út á fimmtudag.