Viðskiptaráð hefur smíðað reiknivél sem sýnir hvaða stefnumál eru líkleg til að rata í stjórnarsáttmála eftir því hvaða flokkar mynda ríkisstjórn. Niðurstöðurnar byggja á afstöðu flokkanna til 60 mála sem ráðið spurði þá út í í aðdraganda kosninga.
Aðeins sammála um þrjú mál
Sé möguleg ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins skoðuð má sjá að flokkarnir þrír eru einungis allir sammála í þremur málum. Þeir eru allir fylgjandi því að setja eigi frekari takmarkanir á skammtímaleigu íbúða, auka ætti orkuöflun í jarðvarma og vatnsafli, og að jafna ætti þrep virðisaukaskatts og fækka undanþágum.
16 mál flokkast sem samningsmál í þessari mögulegu ríkisstjórn, þ.e. þar sem meirihluti tekur afstöðu fylgjandi. 12 mál flokkast sem umdeild mál þar sem sumir eru fylgjandi og aðrir andvígir. Þá eru 29 ólíkleg mál þar sem meirihluti er tekur afstöðu andvígs.
Sammála í 21 máli
Sé möguleg ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Miðflokksins sett inn í stefnumálareikninn má sjá að allir þrír flokkar eru sammála um 21 mál. Þeir eru m.a. allir sammála um að ljúka sölu á Íslandsbanka, selja hluta í Landsbankanum, hætta rekstri ÁTVR, lækka tryggingagjald, jafna þrep virðisaukaskatts og fækka undanþágum og setja á útgjaldareglu.
Þessi ríkisstjórn er fylgjandi í 21 máli, getur samið um 27 mál, er ósamstíga í 2 málum og er mótfallin 10 málum.
Umræddir flokkar eru t.d. ekki á einu máli um hvort afnema ætti tolla á innflutt matvæli, setja frekari takmarkanir á skammtímaleigu íbúða, lækkun bankaskatts og hvort afnema ætti lagakvöð um jafnlaunavottun.