Conagra Brands hefur samþykkt að selja eitt frægasta pastavörumerki Bandaríkjanna, Chef Boyardee, til fjárfestingafyrirtækisins Brynwood Partners fyrir 600 milljónir dala. Þetta kemur fram á vef WSJ.
Matvælafyrirtækið Conagra, sem á meðal annars vörumerkin Slim Jim, Swiss Miss og Orville Redenbacher, keypti Chef Boyardee árið 2000 fyrir 2,9 milljarða dala en innifalið í kaupunum voru matreiðsluspreyið Pam og sinnepstegundin Gulden.
Conagra er eitt þeirra matvælafyrirtækja sem hafa verið að glíma við minni sölu og hagnað og segjast vilja losa sig við eldri vörumerki sem passa ekki lengur við breyttar áherslur fyrirtækisins.
Chef Boyardee var stofnað af ítalska innflytjandanum Hector Boiardi en hann kom til Bandaríkjanna árið 1914 og fékk vinnu sem yfirkokkur á Plaza Hotel í New York.
Hann opnaði seinna meir veitingastað í Cleveland þar sem hann var stöðugt beðinn um að deila uppskriftum sínum með viðskiptavinum. Það var þá sem hann fékk þá hugmynd að selja pasta- og sósurétti sem fólk gat búið til heima hjá sér.