Bandaríski olíuframleiðandinn Chevron hefur lýst yfir áhuga á að kanna mögulegar gaslindir suðvestur af Pelópsskaga í Grikklandi. Þetta kemur fram á vef Reuters en gríska orkumálaráðuneytið greindi frá áhuga fyrirtækisins í dag.

Ráðuneytið segir jafnframt að það myndi taka ákvörðun um málið í vikunni og verður þá nákvæmt rannsóknarsvæði tilgreint áður en alþjóðlegt útboð hefst.

„Þetta er mjög mikilvæg þróun, bæði fyrir þjóðina okkar, orkusjálfstæði og einnig lækkun á orkukostnaði,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Grikkir, líkt og aðrar þjóðir í Evrópu, hafa undanfarin ár reynt að leita annarra leiða til að draga úr þörf sinni á rússneskum gaslindum. Yfirvöld þar í landi telja að gas muni einnig spila lykilhlutverk í orkuskiptum.