Svissneska félagið Climeworks, sem starfrækir stærsta lofthreinsiver á heimsvísu á Hellisheiði í samstarfi við Carbfix og Orku náttúrunnar, hefur tryggt sér 162 milljónir dala, eða hátt í 20 milljarða króna, í nýja fjármögnun.
Í heildina hefur Climeworks nú safnað yfir einum milljarði dala í heildarfjármögnun. Félagið segir ofangreinda fjármögnun vera þá stærsta sinnar tegundar á heimsvísu það sem af er ári.
Skrefi nær fyrstu arðbæra kolefnisföngunarveri heims
„Fjármögnunin færir okkur nær því metnaðarfulla markmiði að byggja fyrsta arðbæra kolefnisföngunarver heims samhliða því að styrkja áframhaldandi þróun tækninnar sem við byggjum kolefnisföngunarverin Orca og Mammoth á Hellisheiði á,“ segir Sara Lind Guðbergsdóttir, framkvæmdastjóri Climeworks á Íslandi, í færslu á Linkedin.
„Þá gerir hún okkur kleift að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum og styðja betur við vaxandi eftirspurn eftir fjölbreyttum lausnum á sviði varanlegrar kolefnisföngunar.“
Sara Lind segir þennan áfanga mjög skýra vísbendingu um að varanleg kolefnisförgun sé ekki lengur fjarlæg framtíðarsýn, heldur nauðsynleg lausn við loftslagsvandanum sem njóti trausts fjárfesta og samstarfsaðila.
„Það er oft og tíðum mjög krefjandi að vera brautryðjandi, sér í lagi þegar markaðir og regluverk sem nauðsynlegir eru fyrir framvinduna eru ófullburða. En á svona tímum erum við minnug þess að við erum á réttri leið!“
Fjármögnun, sem var leidd af fjárfestingafélögunum BigPoint Holding og Parnters Group, fylgir í kjölfar þess að félagið tilkynnti í maí síðastliðnum um að það hygðist fækka allt að 106 stöðugildum á heimsvísu, þar af 78 í Sviss. Um er að ræða yfir 20% fækkun starfsfólks.
Climeworks rakti ákvörðunin m.a. til vendinga í efnahagsumhverfi félagsins, minni áhuga á á loftslagstækni á ákveðnum markaðssvæðum og óvissu um áform félagsins í Bandaríkjunum.
Óvíst er hvort af verði 50 milljóna dala styrkveiting frá bandaríska ríkinu vegna áformaðrar uppbyggingar á þriðju stöð félagsins í Louisiana í ljósi breyttra áherslna bandarískra stjórnvalda.
Félagið rekur tvö lofthreinsiver (e. direct air capture and storage) hér á landi. Annars vegar Mammoth, stærsta lofthreinsiver heims, í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði sem var tekið í gagnið á síðasta ári.
Félagið gaf það út á sínum tíma að Mammoth muni þegar öllum föngunareiningum hefur verið komið fyrir hafa föngunargetu upp á 36.000 tonn af koltvísýringi á ári hverju.
Svissneska fyrirtækið starfrækir einnig stöðina Orca á svæðinu, sem var reist árið 2021, en hún er fyrsta stóra lofthreinsiver heims. Hún hefur föngunargetu upp á allt að 4.000 þúsund tonn af koltvísýringi á ári.
Climeworks á í samstarfi við Carbfix um niðurdælingu og bindingu koltvísýrings sem fangaður er, og Orku náttúrunnar fyrir endurnýjanlega orku.