James Quincy, forstjóri Coca-Cola í Bandaríkjunum, segir að fyrirtækið þurfi að öllum líkindum að selja fleiri drykki í plastflöskum ef tollar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hækka verð á áldósum.

Þetta kemur í kjölfar óskar Trumps um að sjá 25% innflutningstoll á öllu áli og stáli sem flutt er inn til Bandaríkjanna. Ákvörðun sem gæti haft áhrif á verðlag á vörum eins og drykkjum og dósamat.

Umhverfisverndarsamtök hafa þegar skilgreint Coca-Cola sem eitt mesta plastmengunarfyrirtæki heims sex ár í röð. Í desember lækkaði fyrirtækið markmið sitt um að nota 50% af endurunnu efni í umbúðir sínar fyrir 2030 niður í 35-40% fyrir 2035.

„Ef ein tegund af umbúðum verður fyrir hækkun þá verðum við með aðrar umbúðir sem gera það að verkum að við getum haldið áfram að vera samkeppnishæf. Ef áldósir verða dýrari getum við til dæmis lagt meiri áherslu á plastflöskur,“ segir James Quincy.

Rúmlega helmingur af öllu því áli sem Bandaríkjamenn nota er flutt inn og myndi því 25% tollur hafa stór áhrif á verðlag.

Árið 2018, þegar Trump lagði sína fyrstu tolla á ál og stál, fengu margir dósaframleiðendur undanþágur en nú hefur hann sagt að engar undanþágur verði gefnar, hvorki fyrir einstakar vörur né fyrir tiltekin lönd.