Samkeppniseftirlitið (SKE) tilkynnti á föstudag að það hefði sektað Ölgerð Egils Skallagríms hf. um 20 milljónir króna og Coca-Cola European Partners Ísland (áður Vífilfell, hér eftir CCEP) um 17 milljónir króna vegna máls sem á rætur að rekja til ársins 2011.

Í úrskurði SKE segir að Gosverksmiðjan Klettur, sem hóf starfsemi seint á árinu 2010, hafi átt erfitt með að koma á framfæri vörum í verslunum vegna ákvæða um hillupláss og framstillingarhlutföll í viðskiptasamningum CCEP og Ölgerðarinnar. Einnig kom ítrekað fyrir að vörur fyrirtækisins væru fjarlægðar úr hillum og kælum verslana af starfsmönnum CCEP og Ölgerðarinnar eða fluttar á verri framstillingarsvæði.

Fulltrúar Kletts tjáðu SKE að þeir hefðu kvartað yfir þessari háttsemi við matvöruverslanir, meðal annars við Hagkaup sem hefði þá tjáð þeim að CCEP og Ölgerðin réðu því sjálf hvernig fyrirtækin skipulegðu framstillingu á gosdrykkjunum.

Klettur hafði þá samband við CCEP og Ölgerðina og fékk sent afrit af teikningum af framstillingum í goskælum í verslunum Hagkaups sem Ölgerðin hafði útbúið. SKE taldi þessi gögn veita vísbendingar um brot á 10. gr. samkeppnislaga. Þann 19. apríl 2011 framkvæmdi eftirlitið húsleit þar sem gögn voru haldlögð og afrituð.

CCEP sendi eftirlitinu bréf, dagsett 20. apríl 2011, þar sem fyrirtækið lýsti því yfir að það hefði þá þegar hætt öllum samskiptum við Ölgerðina varðandi uppröðun og framstillingu á drykkjarvörum í hillum og kælum verslana. SKE átti í kjölfarið fund með Ölgerðinni sem afhenti gögn sem sýndu fram á samskipti á milli CCEP og Ölgerðarinnar vegna þessa.

Afgreiðsla málsins tók níu ár

Í úrskurði SKE segir að sökum mikils málafjölda í meðferð hjá því hefur rannsókn þessa máls tafist verulega. Þegar umrædd rannsókn hófst var enn verið að vinna úr umfangsmiklum verkefnum tengdum bankahruninu 2008 og afleiðingum þess. Í framhaldinu gekk yfir langvinn hrina samrunamála.

Á árinu 2017 fór fram gagnaöflun í þágu rannsóknar málsins. Af gögnum sem afhent voru mátti ráða að Ölgerðin og CCEP hefðu enn verið að fá sendar sölutölur hvors annars frá smásöluaðilum, flokkaðar eftir seldum stykkjum og lítrum og ítarlega sundurliðaðar eftir vörutegundum.

Í mars 2018 óskaði SKE eftir upplýsingum frá CCEP og Ölgerðinni um hvernig framstillingum og framstillingarhlutföllum á drykkjarvörum væri háttað í hillum og kælum smásöluverslana, sem og teikningum af hillum og kælum verslana. Bæði félögin svöruðu því til að engin samskipti ættu sér lengur stað á milli þeirra sem lyti að þessu.

Ölgerðin skrifaði undir sátt við SKE þann 14. maí síðastliðinn þar sem félagið var sektað um 20 milljónir króna. CCEP undirritaði sátt við eftirlitið þann 3. júlí síðastliðinn þar sem samþykkt var 17 milljóna króna sekt.