Commerzbank, einn stærsti banki Þýskalands, hefur tilkynnt að hann muni segja upp þúsundum starfsmanna í von um að auka arðsemi til að koma í veg fyrir yfirtöku frá ítalska bankanum UniCredit.

Þýski lánveitandinn greindi frá þessari stefnu til að sannfæra fjárfesta um sjálfstæðar horfur bankans en yfirtökutilraunir UniCredit hafa fallið í grýttan jarðveg meðal þýskra stjórnmálamanna.

Ítalski bankinn tilkynnti fyrir jól að hann væri búinn að stækka hlut sinn í Commerzbank upp í 28%. UniCredit hafði tryggt sér 9% hlut í september í fyrra og aðeins tveimur vikum eftir það var ítalski bankinn búinn að tvöfalda hlut sinn upp í 21%.

Commerzbank, sem er með höfuðstöðvar í Frankfurt, sagði í dag að hann myndi fækka 3.900 stöðugildum fyrir árslok 2027. Flestir þeirra sem koma til með að missa vinnuna starfa í Þýskalandi og samsvarar það rúmlega 9% af þeim 42.312 starfsmönnum bankans.

Samkvæmt WSJ stefnir bankinn á 15% arðsemi á eigin fé fyrir árið 2028 en áform liggja fyrir um 12% arðsemi fyrir 2027 og 9,2% fyrir 2024.

„Þetta þýðir að bankinn mun þéna umtalsvert meira en fjármagnskostnaður hans er og verður rótgróinn leikmaður meðal vel stæðra banka í Evrópu,“ segir Bettina Orlopp, framkvæmdastjóri Commerzbank.