Íslenska hátæknifyrirtækið hefur tilkynnt um fækkun starfsfólks. Starfsfólki fækkar um 150 þvert á deildir og starfsstöðvar í fimm löndum, og í kjölfarið starfa 290 manns hjá félaginu á fimm starfsstöðvum, langflestir á Íslandi, að því er segir í fréttatilkynningu.
Þetta er í annað sinn á innan við sem Controlant ræðst í umfangsmikla hópuppsögn en félagið tilkynnti í lok nóvember 2023 um að 80 starfsmönnum hefði verið sagt upp.
„Krefjandi aðstæður á alþjóðamörkuðum og tafir í nýfjárfestingum hafa markað rekstrarumhverfið undanfarin misseri. Controlant þjónustar eftirlitsskyldan iðnað og hefur langt sölu- og innleiðingarferli einnig haft áhrif á verkefnastöðu,“ segir í tilkynningu sem Controlant sendi frá sér í morgun.
„Í ljósi þessa hefur tekjuspá félagsins verið uppfærð og reynist nauðsynlegt að grípa til aðgerða, þar með talið fækkun starfsfólks til þess að draga úr rekstrarkostnaði og aðlaga starfsemi félagsins að þeim verkefnum sem framundan eru.“
Controlant segist leitast stöðugt við að aðlaga starfsemi félagsins að aðstæðum hverju sinni til þess að stuðla að sjálfbærum rekstri til framtíðar.
„Það er erfið ákvörðun að grípa til þessara aðgerða en því miður nauðsynlegt til þess að aðlaga umfang félagsins að núverandi verkefnum og stuðla að sjálfbærum rekstri. Framúrskarandi fólk hefur lagt Controlant lið við uppbyggingu þess, metnaðarfulla nýsköpun, og markaðssókn. Það er því dapurt að kveðja frábæra samstarfsfélaga og ég þakka þeim kærlega fyrir sitt framlag til vegferðar félagsins,“ segir Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant.
Controlant segir áfram vera öflug spurn eftir lausnum fyrirtækisins sem rekja megi til vaxandi kröfu um stafræna umbreytingu í aðfangakeðju lyfja til þess að bæta sjálfvirknivæðingu, skilvirkni og umhverfisspor.
„Við munum áfram sinna núverandi og nýjum viðskiptavinum af kostgæfni, og bjóða framúrskarandi þjónustu og vöruframboð ásamt því að auka skilvirkni og sjálfbærni í rekstri. Sýn okkar er skýr og í samstarfi við stærstu lyfjafyrirtæki heims höldum við áfram að umbylta aðfangakeðju lyfja, útrýma sóun og tryggja öryggi sjúklinga í hvívetna,“ segir Gísli.
Í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í maí síðastliðnum sagði Gísli Controlant vera að hefja nýja vegferð eftir að Covid-faraldrinum lauk en fyrirtækið sinnti verkefnum er sneru að dreifingu og geymslu bóluefna frá Pfizer og öðrum lyfjafyrirtækjum ásamt því að vera með samning við bandaríska ríkið um eftirlit með dreifingu bóluefna.
Hátæknifyrirtækið væri nú að einblína í ríkari mæli á kjarnastarfsemi sína og vöruþróun auk þess að auka kjarnatekjur sínar til framtíðar.
Controlant tryggði sér samtals 80 milljóna dala fjármögnun, eða sem nemur 11 milljörðum króna, í fyrra. Hún fólst annars vegar í 40 milljóna dala fjármögnun sem leidd var af Gildi lífeyrissjóði með þátttöku annarra lífeyrissjóða ásamt einkafjárfestum og núverandi hluthöfum og hins vegar 40 dala milljóna lánsfjármögnun frá breska sjóðinum Apax Credit.
Fréttin hefur verið uppfærð.