Controlant hefur keypt veflausnina BI Manager frá ráðgjafafyrirtækinu Intenta. Samhliða kaupunum mun Bjarki Elías Kristjánsson, einn af stofnendum Intenta og CTO (e. Chief Technology Officer), ganga til liðs við Controlant sem VP of Data and Automation. Kaupverðið á hugbúnaðarlausninni er trúnaðarmál, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

„Kaup fyrirtækisins á BI Manager veflausninni mun styrkja núverandi lausnaframboð okkar. Með kaupunum erum við að veita viðskiptavinum okkar aðgang að ítarlegri gögnum og betri tólum til taka rökréttar og upplýstar ákvarðanir um flutning á vörum innan aðfangakeðjunnar,“ er haft eftir Gísla Herjólfssyni, framkvæmdarstjóra og einum af stofnendum Controlant, í fréttilikynningu.

Þar segir Erlingur Brynjúlfsson, CTO og einn af stofnendum Controlant, um kaupin: „Greining gagna og sjálfvirknivæðing eru algjörir lykilþættir í þeim lausnum sem við bjóðum upp á, auk víðtækra samþættingarlausna (e. Integration) sem gerir viðskiptavinum okkar kleift að safna saman gögnum á skilvirkan máta. Við erum afskaplega ánægð með að geta bætt BI Manager við lausnaframboð okkar og að nýta þá þekkinguna sem við höfum nú þegar öðlast frá Intenta teyminu.“

„Lausnin sem við hjá Intenta höfum þróað hefur leikið lykilhlutverk í að nútímavæða aðfangakeðjuna. Með kaupum Controlant á BI Manager er fyrirtækið í mun betri aðstöðu til að þróa lausnir á sviði viðskiptagreindar (e. Business Intelligence) og sjálfvirknivæðingar (e. Automation) fyrir lyfja- og matvælaiðnaðinn," segir Bjarki Elías Kristjánsson, CTO Intenta. Controlant mun taka yfir þróun BI Manager en Intenta mun áfram að bjóða lausnina til viðskiptavina gegnum þjónustu sína í skýinu samkvæmt samkomulagi.

Starfsemi Controlant er lýst á eftirfarandi máta í fréttatilkynningunni:

„Controlant lausnin byggist á því að hug- og vélbúnaður er notaður til að tryggja gæði viðkvæmra vara í flutningi. Controlant gefur framleiðendum lyfja og matvæla rauntímaupplýsingar um hitastig, raka og staðsetningu meðal annars sem fást með endurnýtanlegum gagnaritum (e. data loggers). Gagnaritarnir eru staðsettir með hinum ýmsu vörum í flutningi. Þetta eru vörur á borð við bóluefni, lyf, matvæli, drykki, og fleira. Gagnaritarnir nýta sér nettengingar í gegnum farsímanet á meðan flutningi stendur og senda gögn í skýjalausn Controlant.  Þar eru gögnin sameinuð í gagnalóni (e. datalake) sem gefur innsýn inn í hin ýmsu tölfræðilegu gögn sem veita viðskiptavinum betri yfirsýn yfir stöðuna í dreifikerfinu, meta hagkvæmni í flutningum og greina hvað má betur. Þá má einnig nálgast upplýsingar um hvar í aðfangakeðjunni sóun á sér stað og hægt er að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir út frá þeim gögnum. Loks getur gagnalónið haft áhrif á ákvarðanatöku er varðar val á birgjum, flutningsaðilum, umbúðum og ytri þætti sem máli skipta, til að mynda flugvelli, hafnir og séróskir um tolla og landamæri.

Controlant vinnur í dag náið með alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum, flutningsaðilum og matvælaframleiðendum í yfir 120 löndum á heimsvísu. Alþjóðlegt samstarf Controlant með Pfizer, bandaríska heilbrigðisráðuneytinu og öðrum hagsmuna aðilum innan Operation Warp Speed (OWS) samstarfsins við dreifingu og vöktun á COVID-19 bóluefninu er gott dæmi um störf Controlant á alþjóðargrundu. Controlant hefur innleitt nýja tækni sem hluti af þessu verkefni með Pfizer og bandarískum stjórnvöldum og hefur skapað svokallaða stjórnstöð fyrir kælikeðjuna (e. Cold Chain Control Tower). Þessi tækni nýtist lyfja- og líftækniiðnaðnum vel, sérstaklega í tilfellum þar sem vörur eru sendar er beint til sjúklinga og neytenda, fyrir klínískar tilraunir og það sem kallað er endastöðva sendingar (e. last mile delivery).“