Íslenska hátæknifyrirtækið Controlant hefur lokið 35 milljón Bandaríkjadala fjármögnun, sem samsvarar um 4,8 milljörðum íslenskra króna. Fjármögnunin samanstendur af 25 milljónum dala í formi nýs hlutafjár auk 10 milljón dala lánsfjármögnunar.
Félagið segir í tilkynningu að fjármögnunin geri því kleift að fara í frekari markaðssókn og stefnumótandi vöruþróun, þar sem markmiðið er áfram að tryggja öryggi sjúklinga og draga úr sóun með rauntímavöktunarlausnum.
Fjármögnunin er í samræmi við samþykkt hluthafafundar þann 17. október s.l., þar sem stjórn Controlant fékk heimild til útgáfu nýrra hluta til að styðja við framtíðaráform félagsins.
„Þessi fjármögnunaráfangi og stuðningur hluthafa er mikilvæg varða á leiðinni að sjálfbærum vexti. Við höldum ótrauð áfram, enda í einstakri stöðu til að umbylta aðfangakeðju lyfja á heimsvísu og skapa verðmæti fyrir hagaðila Controlant,“ segir Søren Skou, stjórnarformaður Controlant.
„Við höfum með stuðningi hluthafa fjárfest ríkulega í grunnstoðum félagsins og skapað Controlant samkeppnisforskot á spennandi og ört vaxandi markaði. Lyfja- og flutningafyrirtæki hafa einsett sér að auka sjálfvirkni í aðfangakeðju lyfja, þar sem innleiðing á stafrænni tækni og rauntímavöktun er óumflýjanleg. Sú stefna lyfjarisanna er óbreytt, og þótt kaup- og innleiðingarferli hafi tafist erum við bjartsýn á framhaldið.“
Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi félagsins í fjármögnunarferlinu en BBA/Fjeldco veitti félaginu lögfræðilega ráðgjöf.
Laga starfsemina að markaðsaðstæðum
Controlant hefur gengið í gegnum krefjandi tíma að undanförnu, sem endurspeglast m.a. í að tekjuspár félagsins hafa lækkað talsvert. Félagið ákvað í lok ágúst að fækka starfsfólki um þriðjung, niður í 290 starfsmenn. Þar áður hafði félagið sagt upp 80 manns í nóvember 2023.
Controlant segist vinna markvisst að því að laga starfsemina að markaðsaðstæðum og stuðla að bættum rekstri félagsins. Auk öflugs markaðs- og sölustarfs hafi félagið ráðist í hagræðingaraðgerðir til að auka skilvirkni og styðja við framtíðaráform um sjálfbæran vöxt.
„Framúrskarandi þjónusta við viðskiptavini er forgangsmál félagsins. Controlant mun halda áfram að þróa lausnir sem miða að því umbreyta aðfangakeðju lyfja, útrýma sóun, og gera viðskiptavinum kleift að mæta áskorunum í takt við öra þróun lyfjageirans.“