Hátæknifyrirtækið Controlant hefur nú opnað nýja starfsstöð í Wroclaw í Póllandi. Starfsstöðin mun styðja við hraðan vöxt fyrirtækisins og mæta vaxandi spurn eftir lausnum Controlant frá nýjum og núverandi viðskiptavinum úr lyfja-, matvæla- og flutningsiðnaði á heimsvísu, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Starfsstöðin í Wroclaw er staðsett í hjarta gamla miðbæjarins og þar starfa nú yfir 20 sérfræðingar á sviði þjónustu, flutninga, fjármála og mannauðs. Í tilkynningu segir að stefnt sé að áframhaldandi vexti í Póllandi á næstu misserum þar sem ráðnir verða inn starfsmenn fyrir allar deildir Controlant með sérstakri áherslu á nýsköpun.

Wroclaw er í vesturhluta Póllands nálægt landamærum Þýskalands og eru Berlín, Prag og Varsjá ekki langt undan og vel tengdar með fyrsta flokks samgöngum. Í Wroclaw eru yfir 20 menntastofnanir sem bjóða upp á menntun á háskólastigi og er þar m.a. að finna framúrskarandi tækniháskóla sem útskrifa þúsundir stúdenta á hverju ári.

Sjá einnig: Öll virðiskeðjan markmiðið

Controlant er ört vaxandi fyrirtæki en í dag starfa 370 einstaklingar hjá fyrirtækinu af 50 mismunandi þjóðernum. Auk höfuðstöðva sinna á Íslandi og nýju skrifstofunnar í Póllandi, rekur Controlant einnig starfstöðvar í Bandaríkjunum og Hollandi.

Til þess að styðja við öran vöxt Controlant síðastliðin ár hefur fyrirtækið markvisst ráðið starfsfólk þvert á svið fyrirtækisins, bæði hér á landi og erlendis og á síðasta ári voru 230 einstaklingar ráðnir til starfa. Langstærstur hluti starfsfólks Controlant er staðsettur á Íslandi eða um 300. 

Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant:

„Við erum ört vaxandi fyrirtæki með metnaðarfull markmið og stefnu til framtíðar.  Við  þurfum að  vera reiðubúin í þá spennandi vegferð sem framundan er og með starfsemi okkar í Wroclaw erum við í sterkri stöðu til að styrkja núverandi viðskiptatengsl okkar og skapa ný. Við fáum einnig greiðan aðgang að hæfu starfsfólki frá framúrskarandi evrópskum háskólum. Við finnum að við erum velkomin í Wroclaw og hlökkum til að stækka teymið okkar þar.“

Jakub Mazur varaborgarstjóri Wroclaw:

„Ákvörðunin sem Controlant tók er dýrmætt skref fyrir borgina og fyrirtækið sjálft. Opnun skrifstofu í Wroclaw mun gera fyrirtækinu kleift að ráða hæfa og vel menntaða einstaklinga og á sama tíma njóta nálægðar við evrópska viðskiptavini. Wroclaw mun geta boðið fólkinu okkar upp á gæðastörf hjá vaxandi fyrirtæki. Controlant hefur gegnt mikilvægu hlutverki í öruggri dreifingu og eftirliti með COVID-19 bóluefnum um allan heim. Við hlökkum til að fylgjast með frekari vexti Controlant.“