Stjórn íslenska lyfjafyrirtækisins Coripharma fékk heimild í síðasta mánuði til þess að hækka hlutafé félagsins um allt að 150 milljónir króna að nafnvirði, að virtu lágmarksútboðsgengi 16 krónur á hlut.

Því er um að ræða hlutafjáraukningu sem getur numið allt að 2,4 milljörðum króna miðað við lágmarksgengi.

Félagið lauk 3,5 milljarða hlutafjáraukningu í febrúar í fyrra. Var hlutafjáraukningin hugsuð til þess að styðja við framtíðarvöxt félagsins með þróun nýrra samheitalyfja og áframhaldandi uppbyggingu söluteymis.

Þar áður fór félagið í 2,5 milljarða króna hlutafjáraukningu í marsmánuði árið 2021, þar sem gengið var 13,7 krónur á hlut. Coripharma hóf sölu á sínu fyrsta samheitalyfi sumarið 2021 en það er flogaveikilyfið Eslicarbazepine.

Coripharma var stofnað árið 2018 en þá keypti félagið lyfjaverksmiðju og húsnæði Actavis í Hafnarfirði af lyfjarisanum Teva Pharmaceutica fyrir ríflega 800 milljónir króna. Ári seinna keypti félagið þróunareiningu Actavis af Teva. Félagið hefur verið rekið með tapi undangengin ár og skýringin er sú að félagið hefur verið í þróunarfasa.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast hana hér.