Stjórnendur íslenska lyfjafyrirtækisins Coripharma hafa í gegnum tíðina lýst því yfir að til skoðunar sé að skrá félagið á First North-markaðinn. Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri félagsins, segir að félagið stefni á skráningu á næstunni, jafnvel á næstu tveimur árum, en það sé þó háð markaðsaðstæðum. Félagið hefur sótt sér sjö milljarða króna í nýtt hlutafé á undanförnum þremur árum, en á eina fjármögnun eftir.
„Samkvæmt áætlunum félagsins eigum við eina fjármögnun eftir. Við gætum farið í frumútboð eftir að við klárum síðustu fjármögnunina. Það fer síðan eftir markaðsaðstæðum hvort við förum í skráningu árið 2024 eða 2025. Við erum ekki að drífa okkur í skráningu í þessu árferði og erum með þolinmóða hluthafa sem hafa fullan skilning á núverandi markaðsaðstæðum,“ segir Jónína.
Ný samheitalyf á markað
Jónína telur félagið hafa fundið sína hillu í samheitalyfjageiranum. Það sé mikilvægt, enda gríðarleg alþjóðleg samkeppni.
„Það er hörð samkeppni í þessum samheitalyfjageira. Við teljum okkur hafa fundið okkar hillu í geiranum sem er annars vegar í verðmætum lyfjum við sjaldgæfum sjúkdómum sem og í erfiðari þróunarverkefnum. Þetta eru verkefni sem henta okkar verksmiðju vel kostnaðarlega séð og þar erum við einnig að nýta styrkleika okkar vel."
Nánar er rætt við Jónínu í Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 27. apríl. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.