Lyfjafyrirtækið Coripharma er nýr aðalsamstarfsaðili handknattleiksdeildar FH. Vörumerki Coripharma verður á öllum keppnisbúningum iðkenda FH í handknattleik næstu þrjú árin.

Í fréttatilkynningu segir að samstarf Coripharma og FH verði afar víðtækt og muni bæði snerta á uppbyggingu yngri flokka starfsins ásamt því að efla afreksstarf deildarinnar. Eitt af meginmarkmiðum samstarfsins sé því að auka þátttöku í handknattleik og styrkja um leið lýðheilsu barna og ungmenna.

„Coripharma vill leggja íþrótta- og æskulýðsstarfi í okkar nærumhverfi lið og sýna samfélagslega ábyrgð sem ört stækkandi fyrirtæki í Hafnarfirði. Stefna FH í að auka veg og virðingu handbolta kvenna jafnt sem karla, ásamt áframhaldandi uppbyggingarstarfi yngri flokka beggja kynja, er stór liður í því að við ákváðum að ganga til samstarfs við félagið,“ segir Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma.

„Jafnrétti kynja er mikilvægur hluti af hugmyndafræði Coripharma og áætlanir FH ríma vel við okkar markmið. Við hlökkum verulega til samstarfsins og trúum því að það muni verða gjöfult fyrir báða aðila.“

Coripharma, sem var stofnað árið 2018, sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á samheitalyfjum til útflutnings. Hjá Coripharma starfa 170 mann í fjölbreyttum störfum við þróun og framleiðslu lyfja.